Hvað er að gerast:

fimmtudagur, nóvember 02, 2006

umferðarmenn og annað fólk

held það yrði nokkuð áhrifaríkt að smíða nokkra svona umferðarkarla og setja þá upp við gangbrautir og umferðarljós. leiðbeiningar hér.

en auðvitað eru þetta ekki karlar, heldur menn. þetta eru kynlausir fullorðnir menn - hugsanlega blökkumenn - en blökkumenn sjást betur á ljósum grunni heldur en menn af öðrum kynþáttum.

ef breyta á einhverjum af þessum mönnum í kynverur þá verður að sjálfsögðu að gera þá að bæði konum og körlum. en hvernig? eru konur alltaf í pilsum og karlar alltaf með stutt hár? eru konur alltaf með stórar mjaðmir og búbbinga og karlar með skegg? hvaða skilaboð eru það til okkar að konur á skiltum séu alltaf í kjól og karlar stuttklipptir? væri þá ekki betra að skrifa bara "kona" undir kræna karlinn (manninn) og "karl" undir þann rauða, en halda kynlausu útliti þeirra?

það góða við þessa ísafoldar-hugmynd er að hún skapaði umræðu sem leitt hefur í ljós hversu brenglaða mynd af samfélaginu sumt fólk hefur. fyrir flestum eru þessar kynlausu verur, sem þó eru kallaðir karlar, eingöngu merki um rétta háttsemi við gönguljós og -brautir, en einhverjir virðast líta upp og sjá birtingarmynd hins "karllæga" þjóðfélags sem við búum í.

þetta er bara bull!
mér finnst svo ljótt þegar fólk þarf alltaf að setja upp kynjagleraugu vegna allra skapaðra hluta.
:: maður pissar á mann - skiptir ekki máli hvers kyns þessir menn eru, þetta eru bara vitleysingar með skrítnar hugmyndir í kollinum.
:: 20 manns bjóða sig fram í prófkjör og 50% þeirra eru kosnir af félagsmönnum - þetta eru 10 manns sem höfðu vilja til að bjóða sig fram og fólkinu sem kaus þá fannst þeir hafa eitthvað framyfir hina 10. það er hreinn hryllingur að skipta þeim í flokka eftir matarvenjum eða líkamsþyngd, kyni göngulagi eða hárvexti.

:: 100 manns læra hjúkrun, þar af útskrifast 70 sem hjúkrunarfræðingar. það þarf ekki og á ekki að halda aukanámskeið og kynningar fyrir örvhenta - "hjúkrunarskóli örvhentra", þótt hlutfall örvhentra hjúkrunarfræðinga endurspegli ekki hlutfall örvhentra í samfélaginu. með því er verið að segja að rétthentir hjúkrunarfræðingar beri ekki hag rétt- og örvhentra jafnt fyrir brjósti. þannig er illa vegið að rétthentum og fólk sem hugsar með þessum hætti ætti að mínu mati að hugsa sinn gang.


það er sjálfsagt mál að berjast gegn mismunun á grundvelli stærðar, litarháttar, kynhvata og þar frameftir. en það þýðir ekki að við þurfum að reyna að troða hlutföllum samfélagsins inn í alla kima þess.
"jafn réttur grænmetisætna til þingsetu",
"fleiri homma í körfuboltalandsliðið",
"kynjakvóta á starfsfólk ræstingarfyrirtækja",
"gyðingakvóta í félagsvísindadeild",
"fjölgum bindindismönnum í stjórnunarstöður fyrirtækja",
"réttum hlutföll fólk undir meðalhæð í læknanámi",
"fleiri karla í ritarastörf".

fyrir utan að það virðast bara vera sum störf og stöður sem eiga að vera skipuð jöfnum hlutföllum kynjanna, t.a.m. þingmennska, ráðherrastöður og sæti í stjórnum fyrirtækja. ekki störf í verksmiðjum, við aðhlynningu, atvinnubifreiðastjórnun eða símsvörun.
fólk agnúast ekki útí að fleiri karlar en konur vilji starfa við tölvur og pípu- og hellalagningar, og fleiri konur en karlar hafi áhuga á því að hanna föt og vera heimavinnandi. en guð hjálpi okkur ef einhver segði að færri konur en karlar hefðu áhuga á því að verða stjórnmálamenn eða stjórnendur. því það er afleiðing feðraveldisins og karllægra áhrifa!


ef ég væri með breiðar mjaðmir og í kjól, þá væri það ekki mér að kenna að ég hef ekki áhuga á frama í stjórnmálum. ef ég væri maður með brjóst og færi í prófkjör þá myndu sumir kalla það jafnrétti ef ég fengi brautargengi, en ójafnrétti myndi ég lúta í lægra haldi fyrir mönnum með typpi.
þetta viðhorf svo margra myndi naga mig ef ég væri kona í mjög mörgu af því sem ég gerði.
fékk ég þetta starf því yfirmaðurinn vill gæta kynjahlutfalla? er ég á þingi því flokkurinn minn hefur einsett sér að hafa alltaf jafnmarga af hvoru kyni á listunum sínum? er mér boðið í sjónvarpsviðtal vegna þess að þáttastjórnandinn hefur verið gagnrýndur fyrir að bjóða fáum konum?
hef ég eitthvað meira til brunns að bera en að hafa fæðst með pjöllu? ég væri ekki viss.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ágætis pistill! - Góð vísa aldrei of oft kveðin o.s.frv.

Hins vegar er ég, sem fyrr, farinn að hafa verulegar áhyggjur af sjálfsmynd þinni sem kynferðisveru. Langar þig til að ganga í kjól og fá breiðari mjaðmir? Svo ertu farinn að tala um brjóst???

Halli minn, hættu nú að leika þér á netinu, þetta hefur hættuleg áhrif!

kv.

hh.