Hvað er að gerast:

Sýnir færslur með efnisorðinu líkamsrækt. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu líkamsrækt. Sýna allar færslur

miðvikudagur, ágúst 06, 2008

hjólað áfram ekkert stopp


þá er vonandi farið að hægja á frjókornaframleiðslunni í Rvk. og nóg komið af hitabylgjum.

nú getur maður loks hrist af sér sumarslenið og byrjað að hjóla aftur og ekki er verra að spara heilan bensínlítra á dag.

fimmtudagur, júní 12, 2008

komið af fjöllum

þetta verður hugsanlega mitt síðasta.

á þriðjudaginn fór fjallgönguhópur skrifstofunnar á Móskarðshnúka (tvöfalda vaffið hægra megin við Esjuna), það var sveitt ferð en frábærlega skemmtileg.

í dag er stefnan sett á enn lengri ferð, á Syðstu Súlu, hæstu Botnssúluna á Þingvallarsvæðinu - lítur ágætlega út á mynd og ekki skemmir veðrið fyrir.

mér finnst ég samt alltaf vera að tefla á tæpasta vað þegar ég geng á fjöll, minnugur þess að það sem fer upp hlýtur að fara (koma) niður aftur.
lýsingin af Móskarðshnúkum er af heimasíðu Sigurðar Sigurðarsonar, neðsta myndin af Syðstu Súlu er af síðunni labbakutar.is

þriðjudagur, júní 03, 2008

kjáni í gönguskóm

eftir langan umhugsunartíma og 2 Esjuferðir í 5 ára Blend strigaskóm (þar af einni lífshættulegri) afréð ég að kaupa mér gönguskó, alvöru.

maður býr nú að þeim alla ævi, þótt notkunin verði eitthvað lítil.

samt ekki eitthvað 35 þúsund króna króm últra heví dútí arctic truck dæmi, ég fór og leitaði að Toyotu Corollu gönguskónna.

flakkað var á milli Útilífs og Intersports í smá tíma .. jú .. Scarpa ... skólínan þeirra virtist nokkuð lekker og vönduð.

fyrst var það ZeroGravity 40 - þessi brúni, en hann var svolítið ljótur .. æ ég vil nú ekki að fólk haldi að ég sé utan af landi ..


næst skoðaði ég ZG 10 ... hmm soldið töff, .. en nei sæll! 23 þúsund! fyrir hvað, er útvarp í honum?
síðan var röðin komin að ZG 65 XCR .. úúú fansí nafn. já, verðið passaði, 15 þúsund... lightweight .. flott... kallaði í Intersport-stúlkuna sem var á vakt og bað hana um skónna í minni stærð.

hún kom að vörmu spori með skó í minni stærð, reyndar bara til í svona gráu, en ég sagði að það væri allt í lagi. þeir pössuðu fínt, þannig að ég keypti þá og labbaði glaður út með bráðina. fékk hana m.a.s. á hilluverði í stað kassaverðs (munaði 2 þúsund).það var síðan ekki fyrr en daginn eftir sem það uppgötvaðist að stúlkan hafði selt mér kvenmannsskó.

ég vílaði það svo sem ekki fyrir mér að ganga um í aðeins mjórri og léttari skóm, en konan mín tók það ekki í mál. ég skyldi skipta þeim út fyrir karlmannlega og gildmannlega gönguskó sem undirstrikuðu maskúlínið.

fimmtudagur, maí 15, 2008

4.000 manns á 6 mánuðum


mikið rosalega er bankafólkið farið að mæta vel í ræktina eftir að lægðin byrjaði.

World Class hefur sagt frá því að nú, 15. maí, séu 18.900 manns í áskrift hjá þeim, en þeir voru 17.900 í febrúar og 15.000 í desember 2007.

þetta er 4.000 manna aukning á 6 mánuðum, frá í desember í fyrra, en þá voru 3 litlar og ein millistór stöð opnaðar.

í nóvember 2006 (árið sem Laugar opnuðu) voru korthafar um 13.000 og þeim fjölgaði því um 2.000 á einu ári, til loka ársins 2007.

til samanburðar eru um 60.000 manns iðkendur í alþjóðlegu WorldClass keðjunni, sem er staðsett í 10 löndum (Ísland ekki inni í þeirri keðju).

í febrúar sl. var ráðgert að opna bráðlega stöðvar í nýja miðbænum í Garðabæ og í Vesturbæjarlauginni ... þetta bara blæs út.

fyrir stuttu heimsótti ég fyrstu stöðina, í Spönginni Grafarvogi, og er þá búinn að sjá allt. sú stöð er frekar stór, með ágætis potti, en það mætti fjölga pottum og installa sundlaug. tækin eru af 1. kynslóð og varla að maður kunni á þau.

nú vantar bara að þeir opni í stærsta hverfi landsins, Breiðholti, og kannski eina stöð utan höfuðborgarsvæðisins.
... nema hið ótrúlega gerist og einhverjir aðrir aðilar sjá sér leik á borði á þessum markaði ...

föstudagur, maí 09, 2008

letilausi dagurinn

"Mennesker, der bliver ved med at dyrke konditionskrævende motion gennem det meste af livet, kan forsinke den biologiske aldring med op til 12 år."

við erum að tala um betri súrefnisupptöku - og hér er ekki tekið með í reikninginn minni líkur á sjúkdómum, betra jafnvægisskyn og meiri vöðvastyrkur.

(mynd af hinum ruslmassaða Gunnari Birgissyni líkamsræktarfrömuði, af WorldClass.is)

sunnudagur, apríl 20, 2008

blóðgjöf

á þessari bresku vefsíðu er fjallað um topp 10 afsakanir sem fólk gefur fyrir því að gefa ekki blóð og hulunni svipt af nokkrum atriðum sem varða þær afsakanir.

það tekur ekki langan tíma að gefa þennan tæpa hálfpott (pint) af blóði sem við erum öll með aukalega í kerfinu, rétt um hálftíma ef ekki er löng bið, og gjöfin veldur ekki slapp- eða sljóleika líkt og margir halda.

blóðgjöfin hressir ef eitthvað er og stuðlar tvímælalaust að andlegri vellíðan.

Blóðbankinn á Snorrabraut er opinn lengur á þriðjudögum og fimmtudögum, til kl. 19 , en best mun vera að koma milli 8-11 því þá er minnsta traffíkin.

það er súpa í hádeginu en annars er boðið upp á samlokur, kleinur og ýmiskonar gúmmelaði.


myndir: (1) auglýsingaherferð Blóðbankans og Vodafone frá 2005, (2) gömul forsíða upplýsingabæklings Blóðbankans, (3) Ást er ... úr Mbl 29. júní 1986, (4) mynd af blóðsugu úr Mbl 13. október 1993, (5) dönsk áróðursmynd.

mánudagur, apríl 07, 2008

bruni í Bláfjöllum

ég var alveg búinn að gleyma því að það væri hægt að sólbrenna á Íslandi í byrjun apríl.

ég var jafnframt búinn að steingleyma því hversu gaman það gat verið að fara á skíði í Bláfjöllum - svo er nýja stólalyftan líka frábær, leðurklæddir stólar!

nú er ég sviðinn í andliti og með bólgna leggi eftir skíðaskóna, mér hlakkar til næst.

miðvikudagur, mars 26, 2008

chemical airplanes á brettinu



í gær lærði ég að það er mjög erfitt að hlusta á Stríð og Frið í hljóðbókarformi á brettinu út á Nesi.

fyrir utan að þessi 10 klukkutíma BBC útgáfa er ekki hressasta tónlistin til þess að sprikla við.

þannig að næsti leikur var að gúgla "gym music", fara á davidelvar.com og fylla spilastokkinn af klassískri snilld á borð við Kemíkal broðers, Whú, Djefferson Aeroplane, beastí bojs og Cjúr.

ég vil bara vara fólk við því að reyna að hlusta á þessa hljóðbók á meðan það gerir eitthvað annað.
frekar að gera eins og vinur minn sem fór á hraðlestrarnámskeið og las pappírsútgáfuna á 20 mínútum - hann sagði að bókin fjallaði um Rússland.

núna er ég á þvílíkri siglingu um Nostalgíuhaf að hlusta á lag Arthúrs Brown, Fire frá 1968 - sjá jútúb - en Prodigy endurunnu lagið þegar ég var á sokkabuxunum árið 1992 með samnefndu lagi - sjá líka jútúb.

ég held að ég hafi spilað vínilplötuna hans pabba með Brown-útgáfunni upp til agna á nýja plötuspilaranum mínum þetta ár.

I am the god of hell fire ... and I bring you ... fieaaarrr
[texti við báðar útgáfurnar]

sunnudagur, febrúar 10, 2008

nokkrir góðir dagar í líkamsrækt

hversu fyndið er það að Gunnar Birgisson hafi verið að vígja líkamsræktarstöð, er það ekki eins og að láta Þorgrím "pungsápu" Þráinsson opna reykingarklúbb?


miðvikudaginn 30. janúar sl. keypti ég vikuprufukort í World Class - þrátt fyrir að það hafi kostað heilann 4300 kjall. ég reyndi að nýta vikuna vel og heimsótti 5 af 6 stöðvum WC á Íslandi.
Seltjarnarnes er sú stöð sem ég heimsótti fyrst og hef heimsótt oftast síðan. hún er ekki of stór, ekki of lítil (1500-2000 fm, eftir því hvort maður telur sturturnar og það allt með), nýleg og snyrtileg og lyktar ekki eins og sjómannshandarkriki eftir þriggja daga sturtuleysi.

  • aðgangur er að sundlaug sveitarfélagsins, sem er vel.
  • sánan er ekki tilbúin, sem er verra - og sturtan er allt of þröng og skolar bara 6 í einu.

Actavishúsið í Hafnarfirði (nýja glerhýsið á horninu) var næsta stopp, mjög fín 700 fm aðstaða þar með útsýni yfir Hafnarfjarðarveginn og með sturtuklefum í miðjunni - ekki mikið af fólki en þó ekki svo lítið að reynslan verði of persónuleg.

  • sánan er ekki tilbúin, sem er verra
  • sturtan skolar bara þrjá í einu í karlmannsklefanum.

Orkuveituhúsið hýsir pínkulítið og vel falið WC við einn bílastæðiskjallarann - það er varla meira en 200 fm. fáir virðast sækja staðinn, eflaust er það einkum fólk sem vinnur í húsinu og örfáir Árbæingar sem vita af staðnum.

  • það skrýtna við þá aðstöðu er hversu stór búningsklefinn er og margar sturtur, miðað við hve fáir geta svitnað í sjálfri æfingaraðstöðunni - hlýtur að vera fyrir hinn almenna sveitta starfsmann OR.

Laugar eru krúnudjásn WC, stærsta heilsuræktarmiðstöð á landinu (sjö þúsund fermetrar, 180 upphitunartæki og 120 hinsegin), staðsett miðsvæðis í Rvk.

  • mjög auðvelt er að falla þar í fjöldann en einnig að finnast maður vera eins og viljalaus líkamsræktarmaur innan um öll hin fíflin.
  • tækin eru reyndar ekki jafn flott og í nýrri stöðvunum, og þá meina ég að það er ekki sjónvarp í sjálfum skíða- og hlaupabrettunum, ég held að ég sé háður þeim lúxus.

Laugardalslaugin er opin gestum Lauga og svo er gufubað inn af sturtunum í karlaklefanum - ég skil reyndar ekki af hverju það þarf að vera niðadimmt þar inni, geta samkynhneigðir ekki bara fengið sérgufubað?

Lágafellslaug í Mosó deilir aðstöðu með lítilli og sætri 700 fm WC-stöð "með fullkomum tækjasal", sturtuaðstaðan er ein sú stærsta og snyrtilegasta í keðjunni, og nánast enginn var í tækjasalnum þegar ég heimsótti hann um fimmleytið í dag, sunnudag, og það var mjög næs að hafa hann út fyrir sig - í upphitunartækjasalnum var einkum úthverfafólk á miðjum aldri, ekkert mikið fyrir augað - en það er líka aukaatriði.

Spöngin er eina stöðin sem ég er eftir að heimsækja, en þar er elsta núverandi WC-stöðin.

  • hún er 1330 fm og ágæt til síns brúks skilst mér, þótt tækin séu aðeins farin að láta á sjá.
  • [uppfærsla janúar 2011: Spöngin er fín þótt sundlaugina vanti, örlítið heimilisleg, gott ef það er ekki pottur á þakinu og fín gufa.]

síðan kortið var keypt hef ég líka farið í mánudagsboltann í Sporthúsinu, sem er aðeins of sjabbý fyrir minn smekk og aðeins á einum stað á Reykjavíkursvæðinu, og farið í Versalalaug í Kópavogi, þar sem fínni Nautilus stöðin er (fór bara í pottinn), en hún er alveg lengst upp í rassgati upp á heiði.

ég svolítið svekktur yfir því að það skuli ekki vera almennileg samkeppni í þessum bransa á Íslandi - WC opnaði t.d. í Hfirði, Mosfellsbæ og útá Nesi í desember sl., á meðan önnur fyrirtæki hafa nánast setið á höndum sér hvað dreifingu stöðva varðar.

starfsfólkið er ágætlega þjónustulundað og allt er frekar snyrtilegt - helst mætti kvarta yfir því að ekki eru handklæði á minni stöðvunum (einungis í Laugum, á Nesinu og líklega í Spöng), mætti ekki splæsa í þvottavél á hinum stöðunum?

  • [uppfærsla janúar 2011: handklæðaleysið var bara byrjunarvandamál að því er virðist.]

á morgun mánudag opnar 700 fm stöð í hæsta húsi landsins, í göngufæri frá heimili mínu, og bráðum opna stöðvar í nýja miðbæ Garðabæjar og við Vesturbæjarlaugina - það er erfitt að láta stækkunarmetnaðinn fram hjá sér fara.

World Class í Turninum er ágæt þegar taka á stuttlega á því, ofatast eru ekki margir á staðnum og flest algengustu tækin má finna þar. sturturnar eru reyndar bara þrjár og líta út og lykta fremur ógeðslega seint á kvöldin.]

fordómar mínir gagnvart stórveldinu hafa minnkað mikið á þessum dögum, og útlit er fyrir að ég haldi áfram að mæta í WC og sláist þannig í hópinn með 17.000 öðrum Íslendingum sem meðlimur í þessum blessaða klúbbi (þeim hefur fjölgað um 2.000 síðan í desember sl. og um 4.000 síðan í október 2006 þegar þeir töldu um 13.000).

spurningin er bara hvort ég verði bráðum massaður í rusl og köttaður í drasl eða endi sem einn af fjölmörgum óvirkum styrktaraðilum þessa fyrirtækis.



[uppfærsla,  janúar 2011:

haustið 2010 opnuðu 8. og 9. stöðin og auðvitað voru þær heimsóttar. tækin þar eru ný af nálinni og helst að hlaupabrettin séu orðin of tæknileg, 5 tungumál og usb-tengi.

Ögurhvarf í Kópavogi er 1100 fm stöð í kreppustíl, húsnæðið hýsti áður Húsasmiðjuna í stuttan tíma og förin eftir hillurnar sjást vel á gólfdúknum.
  • hátt er til lofts og nægt pláss fyrir helstu tæki og slatta af brettum og hjólum, búningsklefinn er líka hæfilega rúmgóður.
  • pípulagnirnar virðast eitthvað vera að stríða stöðinni og sturturnar eru ansi kaldar ef fleiri en 2 eru í sturtu í einu.
World Class í Kringlunni er í gömlu prentsmiðju Morgunblaðsins og er 1500 fm líkt og Spöngin og Nesið en hún virkar samt minni, enda er slatti af henni í afgirtum sölum og ranghölum. húsnæðið er annars skemmtilega hrátt og stöðun ágæt til síns brúks, iðkendur eru þar í yngri kantinum vegna nálægðar við Versló.]

[önnur uppfærsla, apríl 2016:

ef marka má fréttir eru áskrifendur nú orðnir um 27.000. þá hefur WC opnað í 850 fm í Sundlauginni á Selfossi, flutt Grafarvogsstöðina í 2.400 fm húsnæði í Egilshöll og opnað pínkulitla 200 fm stöð í HR við Öskjuhlíð. ennfremur er boðuð 1.700 fm stöð í Breiðholti við sundlaugin hverfisins í maí 2016 og ný 2.000 fm stöð í Norðurturninum Kópavogi í ágúst s.á. sem kemur í stað þeirrar sem staðsett er í (Deloitte) Turninum.]

[þriðja uppfærsla, maí 2018:
- í nóvember 2006 (árið sem Laugar opnuðu) voru korthafar um 13.000
- í desember 2007 voru þeir 15.000, 
- í maí 2008 voru 18.900 manns í áskrift hjá þeim, 

- í apríl 2016 er talan sögð 27.000,
- í maí 2018 er hún orðin 40.000.

fjórða uppfærsla, maí 2022:

vegna kór­ónu­veirufar­ald­urs­ins ... dró úr aðsókn í stöðvarn­ar. Fyr­ir far­ald­ur­inn voru um 49.200 áskrif­end­ur hjá World Class en þeim hafði fækkað í 36 þúsund í maí í fyrra, eða um rúm 13 þúsund. Þeim hef­ur síðan fjölgað í 42 þúsund ... ]

þriðjudagur, janúar 29, 2008

líkamsræktarstöðin Kuggur


í dag fór ég í prufutíma í Kuggi (Nautilus) - og ég get svo sem ekki kvartað.

miðaldra konan í afgreiðslunni í Sundlaug Kópavogs var reyndar ekkert vingjarnleg, þótt ég hafi brosað mínu krúttlegasta og látið vel í ljós hversu áttavilltur og grunlaus ég var um húsakynnin og það sem ég var að fara út í.

karlaklefann fann ég nokkuð auðveldlega niðri í kjallara, enda húsakynnin ekki mjög stór. klefinn er þröngur og alveg við hliðina á sturtunum þar sem miðaldra karlar földu sprellann á sér með varadekkinu.

búningsaðstaðan var svolítið eins og afgreiðslukonan, fín til síns brúks og látlaus, gleðivana en lífseig og ekkert bráðnauðsynlegt að skipta út fyrir eitthvað flottara.í æfingasalnum, sem e.t.v. nær 100 fm, var nokkuð um manninn en þó engin bið eftir tækjum. salurinn er í kjallara og sjónvörp fyrir framan 'upphitunartækin' svokölluðu.

á móti mér tók vinalegur starfsmaður sem útbjó staðlað æfingaprógramm með 9 tækjum - kenndi mér á þau og skráði fyrir mig hvaða stærðir og þyngdir væru góðar fyrir mig að byrja á.

þetta tók fljótt af en skildi mig eftir vel móðann og áreyndann. þá var ekki annað eftir en að fara í sturtu þar sem ég reyndi að nota aukakílóin til að fela sprellann fyrir þeim sem voru að skipta um föt við hliðina.

ég er kannski spéhræddur...

þegar á heildina er litið fannst mér aðstaðan vera eins og í lítilli sundlaug úti á landi - og fólkið líka. enda er skólasundkrökkunum og heitapottsliðinu att saman við þá sem nota líkamsræktina í skiptiaðstöðunni, allir í mikilli nánd við hvern annan, í aðstöðu sem verður að teljast hrörleg en þó boðleg.

ég fékk ekki á tilfinninguna að neinn vildi vera þarna - svolítið eins og í skólasundi í gamla daga.

ég komst ekki í mjög mikla stemmningu yfir staðnum, en var þó alls ekki ósáttur við neitt eitt - heldur ekkert über-sáttur við neitt, en gæjinn sem sýndi mér á tækin var nettur á því.
þá er bara spurning hvort maður eigi að asnast til þess að kaupa vikupassa í plebbapleisinu WC, til að prufa. þar er líka boðið upp á alls kyns sprikltíma sem "Hentra öllum aldurshópum" - kannski það hentri á mig.

mest kitlar þó nýja stöðin í Kópavogi, sem verður á 15. hæð og "með fullkomnustu tækjasal", hún er svo nálægt - opnun hennar hefur verið frestað til 11. feb.

ég held að það gæti verið skemmtilegra að horfa yfir höfuðborgarsvæðið úr aðstöðinni þar en að reyna að finna sætar stelpur til að góna á í kjallara Sundlaugar Kópavogs.

sunnudagur, janúar 27, 2008

líkamsrækt að nafninu til

nú eru bráðum 10 ár síðan ég hætti að æfa fótbolta með Víking, 6 ár síðan ég hætti í framhaldsskólaleikfimi, 3 ár síðan ég og hundurinn fórum síðast út að hlaupa og 1 ár frá því ég fór að taka eftir smávegis aukaþyngd um mig miðjan.
á þessum tímamótum liggur fyrir manni að velja líkamsræktarstöð til þess að kaupa árskort hjá, stunda í mánuð eða svo og hætta svo fljótlega að hafa tíma til þess að fara í ræktina.

í nágrenni við mig eru tvær Nautilus stöðvar, í Sundlaug Kópavogs og í sundlauginni Versölum í Salahverfi - árskort hjá þeim kostar þessa dagana 28 þúsund kall.

í Kórahverfi er nýopnuð heilsuræktarstöðin H10, en hún er því miður aðeins úr leið, alveg lengst upp á Vatnsenda.Sporthúsið er á Breiðablikssvæðinu, það fer misjöfnum sögum af því, en mér hefur sýnst það vera alveg ágætt - ég þarf að gera það upp við mig hvort það sé 45 þúsund króna virði að svitna þar.

11. febrúar opnar svo World Class nýja stöð á 15. hæði í Smárastórhýsinu, það er eiginlega næst mér ef frá er talin dekurstöðin MeccaSpa á Nýbýlavegi (79 þúsund fyrir að láta stjana við sig þar).

World Class er 'the place to be' skilst mér.

á dögunum fór ég í vettvangsferð í WC Laugum - þeir bjóða ekki upp á prufutíma og því lét ég mér nægja að kíkja inn í sal úr kaffiteríunni.
mér er alls ekki illa við að vera eins og maur í risasal eins og þar var, en lyktin sem var alltumlykjandi bæði í afgreiðslunni og kaffistofunni var hreinn viðbjóður, ég er ekki frá því að ég finni hana enn þegar ég loka nefinu.

þegar á allt er litið sé ég hreinlega ekki hvað maður fær aukalega fyrir þennan 55 þúsund kall sem kostar að vera óvirkur meðlimur í WC, er þessi augnskanni svona æðislegur? annars sýnist mér verðið á WC-kortum hafa komist næst því að vera mér boðlegt fyrir sex árum síðan, sjá verðþróun í WC:
World Class rukkar mann um 1500 krónur fyrir að prófa pleisið, og þar með eru þeir búnir að stimpla sig úr leik hjá mér - það er prinsippmál að láta ekki gera sig svona að fífli, og skiptir þá engu hversu hipp og svalur staðurinn er.