Hvað er að gerast:

föstudagur, desember 29, 2006

hjörð af ormum

að fordæmi Særúnar fór ég í gegnum Morgunblaðið á Tímarit.is, til að sjá hvað bar hæst í þjóðfélaginu þegar ég fæddist.

föstudaginn 25. júní 1982 (ár aldraðra) sagði á forsíðunni að Halli væri á togaraútgerð í Noregi. á þeim tíma var ekki vitað að Halli væri einnig á Landspítalanum við Hringbraut - enda hafði ég ekki fengið nafn ennþá.



innar í blaðinu er frétt um skólaslit Stýrimannaskólans og fylgdi með mynd af ungum Guðjóni Ármanni Eyjólfssyni skólastjóra, sem 23 árum seinna átti eftir að verða samstarfsmaður nýfædds drengs sem lá þá í kassa á Landspítalanum.



í einu sérblaðanna mátti sjá auglýsingu í lit fyrir það nýjasta á markaðnum þá dagana, sykurlaust TAB (sem við sem ekki ólumst upp við DuranDuran þekkjum helst úr Stellu í orlofi).


enginn Velvakandi var í föstudagsmogganum 25. júní, en daginn eftir birtist þar bréf frá Maríönnu nokkurri, sem sagðist vinna í unglingavinnunni og fá þar 19,34 kr. á tímann. sagði hún það ekki rétt sem hafði komið fram í Velvakanda nokkru áður að krakkar í unglingavinnunni lægju bara í leti. athyglisverðast við bréfið finnst mér myndin sem fylgdi, af 4 fallegum yngismeyjum, klæðalitlum að raka gras. hefur eflaust orðið til þess að ýta undir jákvæð viðhorf gagnvart Maríönnu og vinnufélögum hennar.


í sama blaði má finna frétt um að á fæðingardaginn minn hafi fylking grasmaðka stöðvað lest á Mið-Ítalíu. ég prufaði að leita að þessu á Netinu en fann ekkert. mig grunar að þetta hafi verið þaggað niður af ríkisstjórn landsins.






í bíóhúsunum mátti velja milli margra stórkostlegra kvikmyndalistaverka, og má þar nefna Jón Odd og Jón Bjarna, Hold Geira (Flesh Gordon - einnig þýtt sem Hvell Geiri), Ránið á týndu örkinni (Raiders of the lost ark), Geðveika morðingjann (Lady, stay dead) og Valkyrjurnar í Norðurstræti (North Avenue Irregulars).

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

hmm... bara til að hafa það rétt, þá var myndin Flash Gordon þýdd Hvell-Geiri, en Flesh Gordon, sem var ljósblá grínmynd, þar sem gert var grín að þeirri fyrr, sem var frekar vinsæl, var svo þýdd Hold-Geiri - þetta voru s.s. tvær myndir. Sú síðari fengist e.t.v. aldrei sýnd í bíóhúsunum í dag ...