Hvað er að gerast:

laugardagur, desember 30, 2006

prófdómarar

hér áður fyrr voru prófdómarar ansi harðir í prófum við Háskólann. þá voru nemendur í munnlegum prófum titlaðir "hinn grunaði" og voru látnir sæta ýmsu:

föstudagur, desember 29, 2006

hjörð af ormum

að fordæmi Særúnar fór ég í gegnum Morgunblaðið á Tímarit.is, til að sjá hvað bar hæst í þjóðfélaginu þegar ég fæddist.

föstudaginn 25. júní 1982 (ár aldraðra) sagði á forsíðunni að Halli væri á togaraútgerð í Noregi. á þeim tíma var ekki vitað að Halli væri einnig á Landspítalanum við Hringbraut - enda hafði ég ekki fengið nafn ennþá.



innar í blaðinu er frétt um skólaslit Stýrimannaskólans og fylgdi með mynd af ungum Guðjóni Ármanni Eyjólfssyni skólastjóra, sem 23 árum seinna átti eftir að verða samstarfsmaður nýfædds drengs sem lá þá í kassa á Landspítalanum.



í einu sérblaðanna mátti sjá auglýsingu í lit fyrir það nýjasta á markaðnum þá dagana, sykurlaust TAB (sem við sem ekki ólumst upp við DuranDuran þekkjum helst úr Stellu í orlofi).


enginn Velvakandi var í föstudagsmogganum 25. júní, en daginn eftir birtist þar bréf frá Maríönnu nokkurri, sem sagðist vinna í unglingavinnunni og fá þar 19,34 kr. á tímann. sagði hún það ekki rétt sem hafði komið fram í Velvakanda nokkru áður að krakkar í unglingavinnunni lægju bara í leti. athyglisverðast við bréfið finnst mér myndin sem fylgdi, af 4 fallegum yngismeyjum, klæðalitlum að raka gras. hefur eflaust orðið til þess að ýta undir jákvæð viðhorf gagnvart Maríönnu og vinnufélögum hennar.


í sama blaði má finna frétt um að á fæðingardaginn minn hafi fylking grasmaðka stöðvað lest á Mið-Ítalíu. ég prufaði að leita að þessu á Netinu en fann ekkert. mig grunar að þetta hafi verið þaggað niður af ríkisstjórn landsins.






í bíóhúsunum mátti velja milli margra stórkostlegra kvikmyndalistaverka, og má þar nefna Jón Odd og Jón Bjarna, Hold Geira (Flesh Gordon - einnig þýtt sem Hvell Geiri), Ránið á týndu örkinni (Raiders of the lost ark), Geðveika morðingjann (Lady, stay dead) og Valkyrjurnar í Norðurstræti (North Avenue Irregulars).

fimmtudagur, desember 28, 2006

konungsbók, HumptyDumpty

var að klára lestur á Konungsbók e. Arnald Indriða.

bókin fannst mér mjög viðeigandi jólagjöf til mín, þar sem hún segir frá ungum og óreyndum íslenskum dreng sem fer til náms við Kaupmannahafnarháskóla og lendir þar í ýmsum ævintýrum. þessvegna sá ég mig fyrir mér sem aðalsögupersónuna, en drykkfelldur há- og grannvaxinn gráhærður prófessorinn með 3 daga skeggið birtist mér sem gamall H. Zimsen af einhverjum ástæðum.

Arnaldur gerir sér mat úr ýmsum pælingum í bókinni, t.d. þeirri hugmynd að íslenskir verkfræðingar hafi á árum áður viljað virkja landið eins og það leggur sig (einhverjir þeirra hafa eflaust viljað það), að nasistar hafi sótt mikinn innblástur í Íslendingasögurnar og að Köben hafi á árum áður verið undursamleg borg töfra og menningar fyrir sauðsvarta íslendinga.

það er sérstaklega gaman að lesa þessa bók hér í Mörkinni þar sem langstærstur hluti hennar gerist í miðborginni - aðalsöguhetjan býr ekki langt frá mér, sækir skóla á svipuðum slóðum, og sagan gerist að miklum hluta til á stöðum sem ég hef verið að lesa um og heimsækja að undanförnu, t.d. á Asíuplássi þaðan sem Gullfoss lagðist að bryggju, í mötuneyti háskólans sem nefnt var Kannibalinn, á bókasafninu þar sem Árnastofnun var o.s.frv.
ég gæti jafnvel trúað því að Arnaldur hafi notað bókina "Kaupmannahöfn - ekki bara strikið" við skriftirnar því margar frásagnirnar virðast beint upp úr henni (ég er einmitt að lesa hana núna). stakk mig svolítið þegar ein persónan sá sig knúna, þrátt fyrir naum fjárráð, til að taka leigubíl að skrifstofu í Kanúkastræti "ekki langt frá bókasafninu" frá Litla Apótekinu, sem er ca. 20 m frá bókasafninu. einhver er þar eitthvað að misskelja.

söguþráðurinn var e.t.v. aðeins of ótrúverðugur, en skemmtilegt að fylgja honum þrátt fyrir það. endirinn var eilítið klúðurslegur reyndar og aðeins of miklum hasar troðið í hann til þess að fá út "rétta" niðurstöðu á söguna.

[og allt þetta fjaðrafok út af þessari gömlu bók, hvers "óbærilegur léttleiki" getur leitt mann í sannleikann um "hvað bók er" - er það?]

***

næst er það The fourth bear, eftir Jasper Fforde - þar sem Sætabrauðsdrengurinn og HumptyDumpty koma m.a. við sögu.





***



"Því að eitt er að skrifa framúrstefnu eða „pastiche“ en sjálf yfirborðssagan, þrátt fyrir alla íróníska fjarlægð, verður líka að vera þannig að maður elti hana gegnum síðurnar. Og það er hún í þessari sögu, þó að það sé samræðan við hefðina sem víkkar merkinguna þannig að sagan er ekki aðeins léleg stæling."
rakst á þennan ritdómarbút á netinu, finnst hann svolítið óskiljan- og uppgerðarlegur, og ekki bara vegna þess að ég þurfti að fletta upp orðinu pastiche.


wikipedia:
a) Pastiche as hodge-podge
a work is called pastiche if it was cobbled together in imitation of several original works.


b) Pastiche as imitation
a literary technique employing a generally light-hearted tongue-in-cheek imitation of another's style; although jocular, it is usually respectful (as opposed to parody, which is not)


hverjum ætli hafi dottið í hug að þýða orðið pastiche sem framúrstefnu? eftir því sem ég fæ best séð er ekkert framúrstefnulegt við að skrifa í pastiche stíl. en hvað veit ég ...


[Lilja er að horfa á Friends og ég var að átta mig á því að ónefnd vinkona mín hefur hugsanlega nefnt barnið sitt eftir barninu hennar Rachel... pfft hahahoho]

miðvikudagur, desember 27, 2006

sjálfhverft en sögulegt

mamma skannaði inn þessa blaðagrein og sendi mér úr Þjóðviljanum - þri. 9. júlí 1985 bls. 7.

ég hafði alltaf staðið í þeirri trú að ég hafi verið að hjálpa til þegar ég með tárin í augunum málaði Kvennahúsið / Hlaðvarpann þennan dag, en í blaðagreininni segir að "krakkarnir hafi fengið að mála að vild sinni á veggi hússins"... eins og þetta hafi bara verið eitthvað grín.



"Um miðjan 9. áratuginn tók sig saman fjöldi kvenna[*] og keypti húsin að Vesturgötu 3. Markmiðið var að forða húsunum frá niðurrifi og koma þar á fót aðstöðu fyrir konur til menningar- og félagsstarfsemi auk húsnæðis fyrir kvennafyrirtæki. [...]
Í Hlaðvarpanum er til húsa eftirfarandi starfsemi: Kaffileikhúsið (stofnað 1994)
Fríða frænka, antikverslun. Stígamót, upplýsinga- og ráðgjafarmiðstöð um afleiðingar af kynferðisofbeldi. Vera, tímarit. Bríet - félag ungra femínista. - og fleira."
- af upplýsingavef um myndlist og myndhöfunda (umm.is), ódagsett
(ég held samt að Stígamót séu alfarið flutt í Strætóbílstjórahúsið á Hverfisgötu - netið er tvísaga í þessu, og ég hef aldrei elt Lilju þangað).
* þ. á m. móðir mín.

mánudagur, desember 25, 2006

your own, personal ... havfrue

var plataður í Skt. Páls kirkjuna hér rétt hjá kl. 13 í dag, í messu hjá íslenska söfnuðinum hér. um 100 manns, flestir komnir á eða yfir besta aldur.

athöfnin var öll fremur leiðinleg og langdregin. formfestan svolítið að fara með prestinn, en kórinn stóð sig ágætlega, sérstaklega þegar smellirnir Í betlehem er barn oss fætt og Heims um ból voru sungnir.
öllu áhugaverðari var hjólatúrinn eftir Löngulínu eftir kirkju. við fundum loksins hina hafmeyjuna. hún er reyndar alveg örstutt frá okkur í Holsteinsgötunni.


sunnudagur, desember 24, 2006

hohoho

you better watch out - " Gonna find out who's naughty or nice "


mjúkir pakkar
the halogen-nosed reindeer

laugardagur, desember 23, 2006

amazing I'm here at all

Blackbooks, sjónvarpsþáttur um eiganda bókabúðar og vini hans frá 2000 - þessi upphafning á alkahólisma og aumingjaskap hefur eflaust haft mikil áhrif á mig í æsku (þ.e. þegar ég var 18). aðalpersónunni Bernard, leikinn af Dylan Moran, er lýst sem svo á wikipediu:
His hobbies are drinking, smoking, reading and insulting people. hmm, gæti verið kennari í lögfræði ...
tilvitnanir úr þáttunum:


Bernard: I'm a quitter. I come from a long line of quitters. It's amazing I'm here at all.

Fran: Do you know that in Tibet when they want something they give something away?
Bernard: Do they? That must be why they're such a dominant global power

Manny: Do you think I should wash my beard?
Bernard: I think you should, yeah. You should wash your beard, then shave it off, nail it to a Frisbee and fling it over a rainbow.
og fyrir þá sem eru nördalega sinnaðir:
Sliders - þrátt fyrir að vera 2. flokks sjónvarpsefni er um að ræða stórskemmtilegar pælingar um tíma- og víddaflakk, nánast algerlega lausar við vísindalegan grundvöll, svo skemmtilegar að annað eins hafði ekki sést í sjónvarpi síðan Quantum Leap sást í sjónvarpi.
Quantum Leap var minn Dallas.

how to care for a donkey?

á síðunni wikiHow má finna ýmsar gagnlegar leiðbeiningar - á borð við how to:
Get out of Quicksand,
Cheat a Polygraph Test
Be Photogenic
Sweep a Girl off Her Feet
Exercise an Open Mind


héðan er ekki mikið að frétta. danskur hamborgarahryggur, kartöflur og PallaPabbaWalddorfsalat í aðfangadagsmat á morgun. óska ykkur gleðilegra jóla.


þrátt fyrir fólksfjöldafælni og valkvíða tókst mér að kaupa þessar örfáu jólagjafir sem ég mun gefa. prinsippmál að klára það fyrir aðfangadag þótt þær verði ekki afhentar fyrr en 10. jan þegar ég sný aftur til rokafturenda norðursins (fyrir utan gjafir til foreldra, þær voru sendar með tengdasystursexpress).
hafði þann háttinn á við kaup á gjöfum að ég valdi eitthvað sem ég myndi vilja sjálfur, væri ég viðkomandi manneskja með öllum hennar kostum og göllum.


e.s. Lyngbær, skólabærinn hennar Lilju sem við heimsóttum í gær, er ekki the place to be.

föstudagur, desember 22, 2006

fáðu það!

vetrarsólhvörf - sólin er lengst lengst í burtu frá miðbaug þessar stundirnar og því er stysti dagur ársins á norðurhveli í dag.
Global Orgasm Day, eða Heimsfullnægingardagurinn er í dag, fyrir þá sem vita ekki hvað þeir eiga að gera af sér í myrkrinu. hugsunin er að öll heimsbyggðin fái í dag fullnægingu (sjá mynd fyrir þá sem ekki hafa séð fullnægingu) og hugsi um leið um heimsfrið - hin jákvæða orka sem þannig verður til mun verða til þess að bæta heiminn. mála yfir hann með gleði.
Orgasm är antagligen något av det skönaste en människa kan uppleva. Det är hela sanningen. 
ég mun leggja mitt af mörkum og hvet aðra til að gera hið sama.
"If you're going through hell, keep going."

myndir: http://www.pbase.com/cre8digital/digi_art og  myspace.com/unclegeezo

fimmtudagur, desember 21, 2006

Vinstrivon

hvernig er hægt að vera á móti breytingum á þessu?


Áfengisgjöld á Íslandi í samanburði við ESB-lönd og
önnur lönd sem hafa sótt um aðild.

(5. apríl 2004.)

Sterkt (kr.)
lítri 40%
Vín (kr.)
lítri 11%
Bjór (kr.)
lítri 5%
Austurríki 342 0 22
Belgía 568 46 18
Búlgaría 88 15 3
Bretland 1.066 239 81
Danmörk 667 92 40
Eistland 317 65 15
Finnland* 970 207 86
Frakkland 496 3 11
Þýskaland 447 0 8
Grikkland 323 0 12
Holland 609 57 21
Írland 1.348 263 85
Ísland 2.646 462 161
Ítalía 220 0 15
Kýpur 71 0 19
Lettland 316 49 9
Litháen 317 42 9
Lúxemborg 356 0 8
Malta 829 0 8
Pólland 369 32 18
Portúgal 302 0 13
Rúmenía 37 6 5
Slóvakía 205 0 8
Spánn 254 0 8
Svíþjóð 1.891 208 69
Tékkland 263 0 0 ,4
Tyrkland 1.183 123 54
Ungverjaland 235 2 16
*Tekið er tillit til lækkunar áfengisgjalds 1. mars.

frv. til laga um breytingu ýmissa lagaákvæða sem varða sölu áfengis og tóbaks var lagt fram 5. okt. sl.
eftirfarandi þingmenn flytja:
1. Guðlaugur Þór S
2. Ágúst Ólafur Sf
3. Birgir Ármannsson S
4. Bjarni Benediktsson S
5. Sigurður Kári S

6. Arnbjörg Sveinsdóttir S
7. Pétur Blöndal S
8. Birkir J. Jónsson F
9. Einar Már Sigurðarson Sf
10. Katrín Júlíusdóttir Sf

11. Guðrún Ögmundsdótti Sf
12. Gunnar Örlygsson S
13. Ásta Möller S

14. Sigurrós Þorgrímsdóttir S
frumvarpið gengur mjög stutt í frjálsræðisátt og því skrítið að sjá að flutningsmenn þess eru annarsvegar "stuttbuxnastrakár" Sjálfstæðisflokksins og hins vegar fólk sem lítið hefur farið fyrir / illa hefur fallið í kramið á þinginu sem er að líða. undir hvoruga flokkunina fellur þó Katrín Júlíusdóttir, sem er bæði hörkudugleg og án efa myndarlegasti þingmaður aldarinnar hingað til.

á listanum er enginn VinstriGrænn. þarf að segja meira um hófsemi VG?
ég bind þó vonir við upprennandi VinstriGræna á borð við Auði Lilju.

"To be young, really young, takes a very long time."

ekta elefant

fyndin auglýsing frá VR þar sem Eirik Sördal fer með leiksigur í hlutverki áhyggjufulla unnustans.

***

í dag var túrhestast meira - en fyrst gáfum við svönunum við Söen. þurftum reyndar að játa okkur sigruð fyrir mávageri sem gerði atlögu að maísbrauðinu sem ég hélt á. Gísli Marteinn, ef þú lest þetta þá mættirðu kíkja hingað með haglarann.

fórum leið hanans úr bók Guðlaugs Arasonar - "Kaupmannahöfn, ekki bara strikið" - bókin fæst m.a. í Magasin fyrir þá sem vilja.
  • Borgardómur - með lögum skal land byggja,
  • latínuhverfið - þar sem við íslendingarnir gengum menntaveginn liðna mánuði,
  • Strikið - þar sem við sáum 2 indverska fíla (sjá myndir), kom svosem ekkert á óvart,
  • Skítastræti sem nú heitir Krystalstræti því þar rennur ekki lengur saur um göturennurnar,
  • Nörregade, þar sem bakarinn bjó og bakaði kringler og julekage,
  • Háskólabókasafnið í Den Indre By, þar sem enn eru geymdar lögfræði- og hagfræðiskruddur (sjá mynd) - las þar örlítið í vetur en mun væntanlega festa rætur á einu borðanna á næstu önn.
  • Ísraelsplads, þar sem var grænmetismarkaður þar til "Pakistanar og Tyrkir yfirtóku grænmetissöluna með öllum sínum sváverslunum" svo vitnað sé í Guðlaug. þarna var reyndar enn grænmetis- og ávaxtamarkaður þannig að hryðjuverkamennirnir hafa ekki sigrað enn,
  • Sænska hverfið sem var álíka skemmtilegt og Svíþjóð - þar sáum við m.a. stærsta hólinn í Austurbrú (sjá dökka mynd)






"If you see someone without a smile, give them one of yours." 

miðvikudagur, desember 20, 2006

Kynlíf er ekki einitóm sæla

Dökkar hliðar kynlífs:
• þú getur orðið fyrir því að einhver segi þér upp og þú verðir miður þín
- úr unglingabæklingi Lýðheilsustöðvar - mér fannst þetta fyndið.
til hægri má sjá útsýnið úr blokkinni okkar, Norðurhöfn - þaðan sem hægt er að fá ódýra siglingu til Póllands.
---

Kristjánsborg, Rósenborg, Strikið, Strætið, Jónshús og juleglögg, Nikulásarkirkja og kirkjur almennt. það er ágætt að vera hér um jólin.

Íris, Óli, Geiri, Maggi, Eva, Rósa tengdasystir og Magga - það eru allir farnir heim.
Magga, Íris og Maggi koma þó aftur að mér skilst, og Geiri þarf að koma aftur til að vígslan geti farið fram með formlegum hætti. auk þess ætlar hann að senda Hödda hingað í eina önn til og senda varamann úr HR til okkar.

við Lilja höfum verið að túra um bæinn síðustu daga og munum gera það á meðan veðrið er svona ágætt - aðeins farið að kólna núna og við sáum m.a.s. snjó áðan - reyndar kom hann úr snjóvél á Strikinu en þetta var samt jólalegt.
prufuðum líka veitingastað í bænum - McDonalds. ódýr matur, lítillátt umhverfi - maturinn ekkert alltof bragðmikill, en nógu góður þó.



mánudagur, desember 18, 2006

hraðbankakortaræningjar og svín á flugi

það er ótrúlega einfalt að ræna kortum og leyninúmerum fólks í hraðbönkum:
hér eru leiðbeiningar í pdf skjali.
hér eru leiðbeiningar á mynd.

leyfum ekki litháískum glæpamönnum að stela íslenskum störfum - take back the crimes.
þetta er a.m.k. meira töff en að ræna blaðburðarunglinga og gamalt fólk.

***

ég fann flug frá Íslandi kæra Íslandi 17. jan, þannig að áætlunin lítur svona út:

- til Rvíkur með IcelandExpresso:
Ons* 10.1.2007 FHE902 12:15, lending 14:35 99,00 DKK
- aftur hingað til Köwen, einnig með Expresso:
Mið* 17.1.2007 FHE901 07:15, lending 11:25 1.999,00 ISK

ákvað að skella verðinu sem ég borgaði líka inn, þetta er nefnilega eðlilegt lággjaldaflugfélagsverð - fiskað úr heitum potti - fyrir utan heita pottinn er IE ekki lággjaldaflugfélag frekar en ég.

fólk má semsagt hætta að spyrja mig á msn hvenær ég komi heim ;)

I'm feeling lucky!


* "Onsdag": Óðinsdagur, kenndur við Óðinn sem er bróðir Merkúrs sem á íslensku er kallaður Mivikúr.

CV-isti ... ég?

Time Magazine var að útnefna mig mann ársins.

"[...] for seizing the reins of the global media, for founding and framing the new digital democracy, for working for nothing and beating the pros at their own game, TIME's Person of the Year for 2006 is you [ég, Halli]."
þetta á eftir að líta rugl flott út á CV-inu!

miðvikudagur, desember 13, 2006

hófaðu þig niður

um leið og ég skammast mín þegar ég heyri sögur af heimskum, fordómafullum og óhjálpsömum íslendingum, sbr. Frjálslyndaflokkinn, Þingvallaafleggjaramálið og sögur á borð við þær sem bornar eru fram í jólajóla G. Steingríms og jólahugvekju Auðvaldsins.

... þá fyllist ég um leið svolítilli eigingjarnri gleði við tilhugsunina um annarra manna heimsku - því mér finnst ég svo frábær í samanburðinum við þetta heimska og vonda fólk.

en margur heldur líka mig sig.
***

ég er almennt fylgjandi forsjárhyggju (litli VG-maðurinn í mér), en mér finnst hún verða að vera í hófi.



lögþvingun til bílbeltanotkunar, bann við því að heimskingjar nefni börnin sín Drullupussa, jafnvel bann við notkun transfitusýru í skyndibitamat og jákvæð mismunun - þetta getur allt verið OK, málefnalegt, réttlætanlegt og hipp og kúl.

en hóf, eins og almenn skynsemi, virðist vera hverfandi kostur víða í heiminum (og hefur verið frá örófi alda). e.t.v. er þetta sérstaklega hættulegt í litlu samfélagi eins og á Íslandi, þar sem einstaka manneskjur geta stundum tekið ákvarðanir sem mikil áhrif hafa á samfélagið, einar síns liðs án þess að ákvarðanirnar lendi undir mikilli rýni annarra. óheft frjálst flæði hugmynda gæti maður sagt.

Lýðheilsustöð hlýtur að vera lang lang besta dæmið um þennan hófskort.

  • berjast fyrir afnámi sykurskatts af vatni?
  • leita leiða til að gera nikótínlyf ódýrari en sígarettur?
  • hvetja til drykkju á sykurlausum drykkjum?
  • beita raunverulegri fræðslu um kynlíf í stað forvarna?
  • hvetja til skynsamlegrar, í stað minni notkunar á áfengi?
neiiii, það verður alltaf að fara alla leið! og helst að þeir sem ákvarða stefnumörkunina hafi sem strangastar og einstefnulegastar skoðanir á viðfangsefninu. kynlíf? ógeðslegt. áfengi? leiðir bara til misnotkunar. þeir sem drekka mjólk eru líklegri til að drepa hvolpa en þeir sem ekki drekka mjólk. meirihluti þeirra sem sprauta sig með benzíni hafa prufað áfengi.

fólk sem hefur það hlutverk að hugsa fyrir okkur hin sem erum of heimsk, hefur tilhneigingu til að vera jafnvel heimskara.

***

ef maður er ekki sammála einhverju, þá er maður ósammála.
ef manni er ekki sama um eitthvað, þá er manni ósama!?!

helvítið hann BinLaden eyðilagði það orð. er það ekki óbein atlaga að íslenskri tungu? málfræðihryðjuverk?