dómari: dómritari mun nú gera grein fyrir hinum ýmsu umræðum og skrifum í þjóðfélaginu um þetta mál.
dómritari: rafvirki á Húsavík sagði í kaffiskúrsumræðum að þetta væri allt runnið undan Birni Bjarnasyni; ungir framsóknarmenn sendu aðilum máls bréf þar sem lagt var til að reyndar yrðu sættir í málinu; tvær systur í Kópavogi sögðu á Útvarpi Sögu að Jón Ásgeir væri mjög glæponalegur með þetta síða hár sitt; framhaldsskólanemi sagði á bloggi sínu að þetta væri fökt öpp mál og gegt boring; ung stúlka sagði við saksóknara í röðinni á Subway í Skeifunni að maður ætti ekki að vera vondur við jólasveininn; svo er hérna nafnlaus tölvupóstur sem barst til konu í hlíðunum ...
saksóknari: NAFNLAUST?!? dómari ég krefst þess að haldinn verði fundur um málið!
verjandi: þetta er ATLAGA að LÝÐRÆÐINU, RÉTTARRÍKINU, RÉTTARSKIPAN LANDSINS, SJÁLFSTÆÐI DÓMSTÓLA og [setjið inn tískuorð]!
saksóknari: ákæruvaldið fer fram á að gerður verði fjölmiðlamatur úr þessari nafnlausu sendingu.
"Eh þetta, nafnlaust bréf, sem menn skrifa, án þess að, þaddna, koma fram undir nafni, eru alltaf verulega ógeðfelld í mínum huga."
- Sigurður Tómas í frétt RÚV.
því nafnlaus bréf sem menn skrifa undir nafni eru auðvitað miklu geðfelldari, er það ekki?
"Bréfið er nafnlaust, það er uppfullt af dylgjum ... atlaga að réttarskipan í landinu .."
- Gestur Jónsson í sömu frétt.
mér finnst gjörsamlega fáránlegt að menn geri athugasemd við að bréfið sé nafnlaust. það er í lagi að gagnrýna svona bréf sökum innihalds þess, og fara þá með það eins og hvern annan róg og kjaftæði, en hins vegar geta verið lögmætar ástæður á bak við að vilja ekki koma fram undir nafni.
það getur verið meinhollt fyrir þjóðfélagið að fólk sem ekki er í aðstöðu til þess að tjá sig í eigin nafni, sökum t.d. þjóðfélagsstöðu, hafi sig í frammi undir dulnefni eða ónafni.
- það getur ekki gert það undir eigin nafni án þess að skaða hagsmuni sína;
- aðrir hafa ekki þekkingu eða aðstöðu til að gera hið sama.án þess að leggja blessun mína yfir að fólk sé að bera ljótar sakir á aðra að tilefnislausu, er ég á móti því að fólk sé að finna að umræðum á þeim grundvelli einum að þær séu nafnlausar.
nafnlaus skrif geta gefið okkur beittari þjóðfélagsumræðu og komið viðkvæmum málum upp á yfirborðið sem ella kæmu aldrei í ljós.
hvaðan heldur fólk t.d. að réttur blaðamanna til þess að gefa ekki upp heimildarmenn komi? hrópar fólk upp yfir sig þegar blöðin segja frá einhverju sem runnið er undan nafnlausum heimildarmönnum?
er það ekki jafngott að þessir heimildarmenn stofni nafnlaus blogg eða sendi nafnlaus bréf, eins og að þeir þurfi að biðja blaðamenn um að koma málum á framfæri?
þetta fræga bréf var heldur ekkert svo ljótt. í því var gagnrýni á dómstóla og varpað upp ýmsum hugmyndum um ástæður fyrir dómum Hæstaréttar. óþægilegt og jafnvel dónalegt - en er það ekki allt í lagi? er tjáningafrelsið ekki líka til þess hugsað að menn geti komið óþægilegum hugmyndum á framfæri? í bréfinu kom ekkert fram sem ekki hafði verið í umræðunni að undanförnu og því var þetta ekki einhver tilefnislaus "atlaga" - ekki leit út fyrir að ætlunin væri að ráðast á dómara, dómskerfið og Gest - heldur koma á framfæri áhyggjum bréfaskrifara.
samsæriskenningar eru best geymdar á yfirborðinu, þar sem menn geta rýnt í og skeggrætt um þær að vild.
það ætti að vera öllum þeim sem fylgjandi eru tjáningarfrelsi ljóst að hagsmunir lýðsins í landinu af því að þessar hugmyndir, þótt þær væru engar stóruppgvötanir, væru viðraðar við þá sem koma að málinu og rötuðu til alþjóðar, eru mun sterkari en hagsmunir Gests og dómaranna (sem auðvitað geta ekki svarað fyrir sig) af því að forða þeim frá því að vera bendlaðir við klíkuskap.
orð Gests hjá Rúv voru atlaga að frjálsri umræðu og hann hefði betur komið þeim á framfæri án þess að koma fram undir nafni ;)
Særún gerði prófíl bréfaskrifara ágæt skil, súmmeraði upp það sem maður hnaut um í bréfinu. þegar ég hugsa málið þá held ég að það sé rétt sem hún segir með að viðkomandi hafi eflaust notað hanska þegar hann handlék bréfið, eins JamesBondlega og það hljómar.
eins og hún, tók ég eftir því að hann notaðist við arabíska og rómverska stafi í bland í kaflasetningu, eitthvað sem ekki er til siðs á Íslandi. hins vegar tók ég eftir því í þýskri bók sem ég var að lesa eftir Dr. Dorotheu Rzepka, 'Zur Fairneß im deutschen Strafverfahren', að þar var svipað kerfi notað:
I.
A.
1.
a)
aa)
viðkomandi er e.t.v. menntaður í Þýskalandi eða þar í kring?
bréfaskrifari umgengst greinilega löglærða menn, en virðist ekki vanur því að lesa eða fjalla um dóma. jafnframt talar hann um lögfræðinga í 3. persónu, sem bendir til þess að hugmyndir hans um lagaleg álitaefni séu frá öðrum komnar.
ef ekki væri fyrir (að því er virðist) litla reynslu af því að fylgjast með dómsmálum, myndi ég á grundvelli þess sem að ofan er talið giska á að Ólafur Börkur hafi skrifað bréfið fræga. hann er menntaður í Evrópu, umgengst lögfróða menn og á hagsmuna að gæta í þessari umræðu. það gæti einnig hafa verið bragð að jafna ekki textann, skrifa í leikmannastíl og segja málinu með greini, til þess að afvegleiða fólk.
annars var vel til fundið hjá S. Sævarrri að fáránlegt væri að gera sérstakt mál út af nafnlausum bréfum, þau séu ekkert frábrugðin öðrum nafnlausum miðlum að öðru leyti en að vera sett í umslag og send í venjulegum pósti.
eins gott að saksóknari les ekki steypuna á blog.is, jah, eða tölvupóstinn sinn - þar gæti hann fundið helling af ásökunum og steypu. það væru þá eflaust fundarhöld 24/7.
fundurinn sem Sigurður boðaði til var ekkert síðri atlaga að réttarskipan í landinu heldur en bréfið sem fjallað var þar um. týpískt dæmi um ótímabæran legvatnsmissi.
mæli með mengella.blogspot.com - listilega skrifað nafnlaust blogg með fullt af ljótum ásökunum og dónaskap, en inn á milli koma mjög góðir punktar.
hnakkus.blogspot.com er líka helvíti skemmtilegur stundum.
áhugasömum er loks bent á nýstofnað wikileaks.org - síðu sem er sérstaklega hugsuð fyrir viðkvæmar upplýsingar og skoðanir (sjá grein í Times) sem menn þora ekki að láta í ljós undir eigin nafni, hvers einkunnarorð eru: "Three things can not hide for long: the Moon, the Sun and the Truth" - Siddhartha