á tiltölulega nýuppbyggðu svæði í borgarhlutanum Kirchberg, stutt frá miðbæ Lúxemborgar, er Evróputorfan, þar sem mikill fjöldi ESB-bygginga hefur risið, auk ýmissar annarrar starfsemi á borð við banka, lögmannsstofur, háskóla-campus og hótel.
Kirchberg svæðið var tengt 'restinni' af borginni með rauðu brúnni (Pont rouge), byggðri 1960 og stundum nefnd sjálfsmorðsbrúin - í dag eru göngustígar þessarar 355 m löngu brúar yfirbyggðir, af tillitssemi við fólkið sem býr 85 m fyrir neðan brúna, en sjálfsmorðstíðni er óvíða hærri en í Lúxemborg.
á öðrum enda brúarinnar rís mikill stálbiti til heiðurs Roberts Schuman, og er það vel við hæfi.
stuttu eftir að komið er af brúnni mætir manni Hliðið að Evrópu, tveir 70 m háir turnar, sem hafa verið kenndir við Óserus og Ísis.
turnarnir hýsa starfsemi framkvæmdastjórnarinnar og Evrópuþingsins m.a., hægra megin á myndinni má sjá glitta í Fílharmoníuna, en lengra til hægri rís hin ofsaljóta asbestosmengaða Alcide de Gasperi, forfaðir ESB-bygginganna.
hér er Fílharmonían sem byggð var árið 2003 í hluta af sínu veldi (sjá flottari mynd), vinstra megin er hluti af hliðinu, fyrir ofan asbestosógeðið, og hægra megin er Robert Schuman bygging Evrópuþingsins.
fyrir aftan asbesósklumpinn er Hemicycle byggingin, á Fort Thüngen götu, sem ég sýndi myndir af um daginn. þar er leynistofnunin sem ég var hjá í 3 mánuði til húsa.
Róbert Schúman var driffjöður í 'sameiningu' Evrópu, "a noted Luxembourg-born German-French politician who is regarded as one of the founders of the European Union", fyrir þá sem ekkert vita - byggingin sem heitir eftir honum er ekkert sérstaklega tilkomumikil, en er heilög í hugum margra.
hinum megin við götuna (JF Kennedy hraðbrautina) er Evrópudómstóllinn, þessi valdamikla stofnun sem hefur lögsögu yfir um 460 milljónum Evrópubúa og hefur aðalsæti í Lúx.
aðalbygginguna, sem heitir Palais , er verið að stækka og auk þess var mötuneytið nýlega tekið í gegn - maturinn þar er með ágætum.
í byggingunni eru bæði ECJ og CFI, en Court of Auditors er steinsnar frá í sérbyggingu. starfsmannadómstóllinn er aðeins lengra frá, í sömu byggingu og Kaupthing Bank.
dómstólaarmur ESB er að öllu leyti staðsettur í Lúxemborg, en auk þess er Eurostat með höfuðstöðvar þar, í verslunarmiðstöðinni Auchan.
við hlið dómstólshússins er verið að leggja lokahönd á þýðingarturna dómstólsins, en lögþýðendur (lawyer linguists) eru stærsti hluti starfsfólks hans.
turnarnir eru reyndar strax orðnir of litlir, því ekki var gert ráð fyrir nýjustu aðildarlöndunum Búlgaríu og Rúmeníu þegar ráðist var í þá.
þýðendur hafa hingað til hafst við í bráðabirgðahúsinu 'batiment T', sem menn sjá því miður ekki fram á að geta rifið.
á þessari mynd má sjá glitta í hús framkvæmdarstjórnarinnar.
framkvæmdastjórnin er í þessari speglaklæddu byggingu sem heitir eftir Jean Monnet, einum af hugmyndasmiðunum að baki ESB, sem var sagður hafa haft raunsæa sýn á nauðsyn Evrópu til þess að komast burt frá sögulegum einstrengingshætti sínum.
Jean Monnet eru eignaðar nokkrar tilvitnanir, má þar nefna:
- "Það er engin framtíð fyrir íbúa Evrópu nema í bandalagi."
- "Ekkert er mögulegt án manna; ekkert endist án stofnana."
Monnet er rosalega 80's að innanverðu, með eiturgulum innréttingum og endalausum stofnanaranghölum. mötuneytið er eins og í bandarískum grunnskóla, en sumir fara þangað til þess að fá góðar steikur.
þessi mynd sýnir ekki bestu hlið hússins, heldur innganginn í bílakjallarann.
framkvæmdastjórnin hefur aðalbækistöðvar í hinni íburðarmiklu
Berlaymont byggingu í Brussel.
skemmtilegast var að eyða tíma sínum í byggingu Evrópuþingsins (KAD / BAK) sem kennd er við Konrad Adenauer,
umdeildan Þýskalandskanslara, en hún var byggð árið 1987.
þar má m.a. finna matvöruverslun, kaffihús, banka og bókabúð og mjög veglegt mötuneyti, það vinsælasta á Evróputorfunni.
aðalsæti Evrópuþingsins er í Strassborg, en myndi af Babýlonsturni þess
setti ég á netið í októberlok (sjá neðst þar).
á
þessari síðu er að finna 3D kort með þessum byggingum öllum, fyrir þá sem kunna að hafa áhuga -
ýmiss annar fróðleikur er þar líka um líf og starf í miðborg Evrópu.