Hvað er að gerast:

þriðjudagur, janúar 29, 2008

líkamsræktarstöðin Kuggur


í dag fór ég í prufutíma í Kuggi (Nautilus) - og ég get svo sem ekki kvartað.

miðaldra konan í afgreiðslunni í Sundlaug Kópavogs var reyndar ekkert vingjarnleg, þótt ég hafi brosað mínu krúttlegasta og látið vel í ljós hversu áttavilltur og grunlaus ég var um húsakynnin og það sem ég var að fara út í.

karlaklefann fann ég nokkuð auðveldlega niðri í kjallara, enda húsakynnin ekki mjög stór. klefinn er þröngur og alveg við hliðina á sturtunum þar sem miðaldra karlar földu sprellann á sér með varadekkinu.

búningsaðstaðan var svolítið eins og afgreiðslukonan, fín til síns brúks og látlaus, gleðivana en lífseig og ekkert bráðnauðsynlegt að skipta út fyrir eitthvað flottara.í æfingasalnum, sem e.t.v. nær 100 fm, var nokkuð um manninn en þó engin bið eftir tækjum. salurinn er í kjallara og sjónvörp fyrir framan 'upphitunartækin' svokölluðu.

á móti mér tók vinalegur starfsmaður sem útbjó staðlað æfingaprógramm með 9 tækjum - kenndi mér á þau og skráði fyrir mig hvaða stærðir og þyngdir væru góðar fyrir mig að byrja á.

þetta tók fljótt af en skildi mig eftir vel móðann og áreyndann. þá var ekki annað eftir en að fara í sturtu þar sem ég reyndi að nota aukakílóin til að fela sprellann fyrir þeim sem voru að skipta um föt við hliðina.

ég er kannski spéhræddur...

þegar á heildina er litið fannst mér aðstaðan vera eins og í lítilli sundlaug úti á landi - og fólkið líka. enda er skólasundkrökkunum og heitapottsliðinu att saman við þá sem nota líkamsræktina í skiptiaðstöðunni, allir í mikilli nánd við hvern annan, í aðstöðu sem verður að teljast hrörleg en þó boðleg.

ég fékk ekki á tilfinninguna að neinn vildi vera þarna - svolítið eins og í skólasundi í gamla daga.

ég komst ekki í mjög mikla stemmningu yfir staðnum, en var þó alls ekki ósáttur við neitt eitt - heldur ekkert über-sáttur við neitt, en gæjinn sem sýndi mér á tækin var nettur á því.
þá er bara spurning hvort maður eigi að asnast til þess að kaupa vikupassa í plebbapleisinu WC, til að prufa. þar er líka boðið upp á alls kyns sprikltíma sem "Hentra öllum aldurshópum" - kannski það hentri á mig.

mest kitlar þó nýja stöðin í Kópavogi, sem verður á 15. hæð og "með fullkomnustu tækjasal", hún er svo nálægt - opnun hennar hefur verið frestað til 11. feb.

ég held að það gæti verið skemmtilegra að horfa yfir höfuðborgarsvæðið úr aðstöðinni þar en að reyna að finna sætar stelpur til að góna á í kjallara Sundlaugar Kópavogs.

Engin ummæli: