hetjukverúlantinn Þorgeirson
[...] illu heilli var Hæstiréttur Íslands stofnaður tveim árum síðar, árið 1920. Þá lokaðist íslensk lögfræði inni í Háskóla Íslands. Prófessorarnir ykkar sitja í hæstarétti líka svo þið laganemar haldið áfram að vera í prófum hjá þeim, líka eftir að þið eruð orðnir hrl. Íslensk lögfræði er hvergi kennd nema í Reykjavík. Gagnrýnin hugsun á þar ekki upp á pallborðið. Þetta er sams konar fagleg einokun og hrjáði allar greinar vísinda í sovétkerfinu.
[...]
Síðasti sigur hans [yfir íslenskum stjórnvöldum] vannst þegar hann fékk að sleppa eignarfallsessinu í föurnafni sínu, enda kveðst hann einskis eign vera. Þorgeir er því Þorgeirson. Þorgeir Þorgeirson er maður sem stendur fast á rétti sínum.
- heimasíða Þorgeirs Þorgeirsonar rithöfundar og athafnakverúlants*, sem m.a. er frægur fyrir að hafa unnið mál gegn íslenska ríkinu fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu, er um margt fróðleg.
* kverúlant (lat. querulus) er maður sem er gjarn á að telja sig beittan órétti af öðrum og leitar allra leiða til að berjast gegn því.
þar kemur m.a. fram að hann hafi eytt 3000 klukkutímum í gerð síðunnar, sem heitir leshús.
einnig er þar að finna margskonar skjöl, dóma, ákvarðanir og viðtöl sem tengjast baráttu hans við stjórnvöld og dómstóla vegna greinaskrifa hans í Mbl. 1983. þar ræddi hann um það vandamál sem heimskir dyraverðir og lögreglumenn voru í Reykjavík á þeim tíma og sagði hann að sumir lögreglumenn væru "einkennisklædd villidýr".
ég held að fullyrða megi að dyraverðir hafi almennt lítið batnað síðan þá, en lögreglumenn trúi ég að hafi skánað. fyrir utan suma.
málið sem hann fór með til Mannréttindadómstólsins varð til þess að ákveðið var að lögfesta Mannréttindasáttmála Evrópu, árið 1994, og í framhaldinu var stjórnarskráin uppfærð til samræmis við (þá) nútímann.
ánægðastur held ég samt að hann hafi verið þegar hann fékk boð frá Davíð Oddssyni sjálfum (ráðherra Hagstofunnar), daginn fyrir alþingiskosningar 1999, um að eignarfallsessið í nafninu hans væri niður fallið. enda hafði hann náð því í gegn að vera nefndur Þorgeirson í málsmeðferðinni í Strassborg.
Þorgeir fæddist árið 1933 og lést sjötugur að aldri. hann lifir þó áfram í gegnum heimasíðuna sína, ráðamönnum fyrr og nú til ama.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli