Hvað er að gerast:

þriðjudagur, október 17, 2006

bjór í Belgíu

þessi belgíuferð heppnaðist með eindæmum vel!

piwo
kolféll fyrir Belgískum bjór, þó ekki fyrir Stellu - við erum enn bara kunningjar. Chimay, Duvel, Corsendonk og fleiri eðalbjórar af svipuðum gæðum - það eru vinir sem eru mér að skapi. bæði Stella og belgískt súkkulaði eru ekki að gera sig fyrir mig. ég sit reyndar núna heima í Holsteinsgötu og drekk þennan eina Stellubjór sem ég tók með mér heim, og reyni að mana mig til að klára súkkulaðimola sem Lilja gaf mér. sama með uppáhald Belga, pommes frittes - ég er ekki að ná því hvað er málið með þá áráttu. þarna eru frönskustaðir (frituur) útum allt og ef ég skildi pabba hennar Jódíar rétt þá voru amerísku hermennirnir í Belgíu þegar þeir kynntust frönskum kartöflum, þeir föttuðu bara ekki að þeir voru ekki lengur í Frakklandi :o

ferðalög
Antwerpen, Gent og mest af öllu Leuven urðu fyrir valinu í þessari túristaferð, sólin skein og belgar brostu (niður til mín - þetta er mjög stórt fólk - þótt það virðist minnka þegar það eldist ..). gamlar borgir, menning, kirkjur, blabla - þið vitið hvernig þetta er. Jodie vinkona mín sýndi mér um Antwerpen og Gent, en Vala, BogÓlafía, Birkir og Hafdís áttu öll þátt í því að sýna mér hvernig maður skemmtir sér í Leuven - bar-hopp, bjórdrykkja, belgísk ballskák, matarboð og ekta belgískur fjölskyldumatur: gúllas með frönskum.
stefnan var reyndar sett á Brugge í gær, en nei - 59 € hefði það kostað, hrfmp. til samanburðar borguðum við 10 og 12 € til að fara bæði fram og til baka til hinna borganna - með helgarafslætti. lestarkallinn sagði okkur að það væri miklu ódýrara að fara með rútu - en það reyndist ekki alltof auðvelt. samtalið við rútukallinn var e-vegin svona: "Bús? Brús?" "Já, wí wud læk bös tiket to Brús" "Brús? bus to Brús?" "jess, ken ví bæ a tiket tú Brús?" "No no there is not possible Brús with bus!".

fólk
Vala litli gullmoli (gulldvergur?) hýsti okkur og var eflaust frelsinu fegin þegar við loksins héldum aftur heim til Köben. hún býr í risastórri íbúð, sem þó er aðeins eitt herbergi með 2 metra háu rúmi og sturtu á miðju stofu/eldhúsgólfinu :)
svo það komi fram þá er brotthvarf dvergsins úr raf-umheimum ekki (að ég held) mér að kenna, heldur bilaði tölvan hennar. ég afrekaði hinsvegar að stela skeið frá henni (sorry Vala) og brjóta rauðvínsglas heima hjá Boga og Ólafíu - þumalfingrum fjölgar hjá mér í réttu hlutfalli við innbyrta bjóra.

fyrir þá sem vilja eru hér nokkrar myndir sem tala sínu máli.

flug
mikið ótrúlega er Khafnarflugvöllur mikil hörmung. held hann blikni við hlið allra annarra flugvalla hvað varðar þjónustu, hvort sem það er í slóvakíu, tékklandi, þýskalandi, íslandi eða bara annarsstaðar þar sem menn búa ekki í strákofum.
Brusselflugvöllur kom mér aftur á móti mjög skemmtilega á óvart, sem og flugfélagið Virgin Express. röðin að check-ininu var engin í Brussel (ég taldi held ég 7 afgreiðsluborð sem stóðu mér til boða), á móti endalaust langri hörmungsröð í Khöfn. virgin-flugið okkar var í flugvél SN Brussel Airlines, sem þýddi að það var matur og kaffi innifalið - ómetanlegt þegar maður er búinn að vera í flugvallarstressi allan morguninn að fá þessa heitu flugvallarmáltíð - þótt ekki séu þær glæsilegar.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

ég mæli með að þú fáir þér bjórdælu, þú þarft ekkert á kaffivél að halda hehe
kv, Ólöf frænka
hey ég þarf að hafa samband við þig, vantar glósur hjá þér frá fyrsta ári fyrir andreu vinkonu :)
settu mig inn á msn olofagustsdottir@hotmail.com

sunnudagur, 15 október, 2006

Halli sagði...

ætlarðu bara að kopi-peista þetta komment á allt sem ég skrifa þartil ég adda þer á msn?
msn-ið mitt er hérna fyrir ofan, letiblóð!