Hvað er að gerast:

þriðjudagur, september 12, 2006

vondur draumur, maður

í nótt var ég að labba í áttina að vinnunni í Kópavogi. þetta var fagur haustmorgun og ekki alveg orðið bjart. reyndar var ég á gangi þar sem á að vera fjara, en í staðinn var kominn nokkuð stórgrýttur mói. ég leit upp og sá þar stjörnuhrap, nei - þetta eru 4, 5 .. alveg yfir 10 stjörnuhröp. ég fór auðvitað að óska mér, en datt ekki nógu margt í hug. þá sé ég var eitt hrapið hrapar niður í áttina að mér, og lendir ekki svo langt í burtu, með svolitlum látum.
þá lít ég áfram og sé hvar hundruðir stórra loftsteina (þ.e. steina í loftinu) komu æðandi í áttina að mér, og lengst fyrir framan mig voru þeir farnir að lenda. fólk var öskrandi og steinarnir mölbrutu allt sem varð á vegi þeirra. ég leit til vinstri og hugsaði með mér að kannski gæti ég falið mig í kjallaranum í vinnunni, sem er í sterkbyggðu húsi. ég áttaði mig þó á því að það myndi varla halda lengi á móti þessum gígantísku hnullungum.
þá sé ég einn hnullunginn (þeir voru farnir að lenda ansi nálægt mér) lenda á risastóru grjóti sem var þarna í móanum, og grjótið haggaðist varla. ég var á leiðinni að forða mér bak við grjótið, til að bíða örlaga minna (hugsaði með mér .. "jæja, ætli maður verði ekki að reyna að gera gott úr þessu"), þegar ég vaknaði rennblautur á vindsæng í Danmörku.












af hverju lét draumameðvitundin sér detta í hug að fyrst kæmu bara örfáir steinar, og svo ragnarök, en ekki bara strax bylgja af steinum? er ég búinn að horfa á svona margar geimbíómyndir?
af hverju vaknaði ég á vindsæng? jú, það er reyndar vegna þess að foreldrar Lilju eru í heimsókn og sofa í rúminu okkar.



**********
en þetta er búið að vera rosa fínt hérna í DK. veðrið er alger steik, og bjórinn ekkert svo dýr. ég er hættur að taka lestina, til að spara (ég er ekkert að deyja úr nísku, það er bara allt að hækka hérna úti, og þjónustan að versna - las það í Dato áðan (eitt af nýju fríblöðunum hér), kastrup, lestirnar, strætórarnir, pósturinn).

ég fór í minn fyrsta pólskutíma áðan, og það er bara svoldið svært. vorum 7 nemendur, kennslan í pólsku fer fram á dönsku, bókin er á ensku og ég þarf að hugsa allt á íslensku. eitt af þessum tungumálum verður að gefa eftir, og ég held það verði íslenskan - nú fer ég að hugsa á dönsku eða pólsku.

er að lesa 24timer núna, annað fríblað sem skaut upp kollinum eftir að fréttist að íslendingar ætluðu að setja á fót danskt fréttablað. forsíðufréttin er að margar au-pair stúlkur fái ekki greitt fyrir vist sína hér, því mangararnir sem reddi þeim plássinu taki peningana þeirra (ca. 2500 dkr. á mánuði). pólitíkusar lýsa því yfir að stúlkurnar eigi að fá landvist í baunalandi ef þær tilkynna um mistnotkun. svipað og verið var að tala um á ísl. með erlendu konurnar sem eru lamdar af kallinum sínum (sú umræða var einmitt í gangi hér þegar ég kom út, um konur sem danskir karlar flytja inn).
í gær var forsíðufréttin "au paur-piger arbejder som slaver hos rige danskere" ... þetta er alveg virkilegt vandamál með þessar stelpuskjátur!

Engin ummæli: