hversu fyndið er það að Gunnar Birgisson hafi verið að vígja líkamsræktarstöð, er það ekki eins og að láta Þorgrím "pungsápu" Þráinsson opna reykingarklúbb?
miðvikudaginn 30. janúar sl. keypti ég vikuprufukort í World Class - þrátt fyrir að það hafi kostað heilann 4300 kjall. ég reyndi að nýta vikuna vel og heimsótti 5 af 6 stöðvum WC á Íslandi.
Seltjarnarnes er sú stöð sem ég heimsótti fyrst og hef heimsótt oftast síðan. hún er ekki of stór, ekki of lítil (1500-2000 fm, eftir því hvort maður telur sturturnar og það allt með), nýleg og snyrtileg og lyktar ekki eins og sjómannshandarkriki eftir þriggja daga sturtuleysi.
- aðgangur er að sundlaug sveitarfélagsins, sem er vel.
- sánan er ekki tilbúin, sem er verra - og sturtan er allt of þröng og skolar bara 6 í einu.
Actavishúsið í Hafnarfirði (nýja glerhýsið á horninu) var næsta stopp, mjög fín 700 fm aðstaða þar með útsýni yfir Hafnarfjarðarveginn og með sturtuklefum í miðjunni - ekki mikið af fólki en þó ekki svo lítið að reynslan verði of persónuleg.
- sánan er ekki tilbúin, sem er verra
- sturtan skolar bara þrjá í einu í karlmannsklefanum.
Orkuveituhúsið hýsir pínkulítið og vel falið WC við einn bílastæðiskjallarann - það er varla meira en 200 fm. fáir virðast sækja staðinn, eflaust er það einkum fólk sem vinnur í húsinu og örfáir Árbæingar sem vita af staðnum.
- það skrýtna við þá aðstöðu er hversu stór búningsklefinn er og margar sturtur, miðað við hve fáir geta svitnað í sjálfri æfingaraðstöðunni - hlýtur að vera fyrir hinn almenna sveitta starfsmann OR.
Laugar eru krúnudjásn WC, stærsta heilsuræktarmiðstöð á landinu (
sjö þúsund fermetrar, 180 upphitunartæki og 120 hinsegin), staðsett miðsvæðis í Rvk.
- mjög auðvelt er að falla þar í fjöldann en einnig að finnast maður vera eins og viljalaus líkamsræktarmaur innan um öll hin fíflin.
- tækin eru reyndar ekki jafn flott og í nýrri stöðvunum, og þá meina ég að það er ekki sjónvarp í sjálfum skíða- og hlaupabrettunum, ég held að ég sé háður þeim lúxus.
Laugardalslaugin er opin gestum Lauga og svo er gufubað inn af sturtunum í karlaklefanum - ég skil reyndar ekki af hverju það þarf að vera niðadimmt þar inni, geta samkynhneigðir ekki bara fengið sérgufubað?
Lágafellslaug í Mosó deilir aðstöðu með lítilli og sætri 700 fm WC-stöð
"með fullkomum tækjasal", sturtuaðstaðan er ein sú stærsta og snyrtilegasta í keðjunni, og nánast enginn var í tækjasalnum þegar ég heimsótti hann um fimmleytið í dag, sunnudag, og það var mjög næs að hafa hann út fyrir sig - í upphitunartækjasalnum var einkum úthverfafólk á miðjum aldri, ekkert mikið fyrir augað - en það er líka aukaatriði.
Spöngin er eina stöðin sem ég er eftir að heimsækja, en þar er elsta núverandi WC-stöðin.
- hún er 1330 fm og ágæt til síns brúks skilst mér, þótt tækin séu aðeins farin að láta á sjá.
- [uppfærsla janúar 2011: Spöngin er fín þótt sundlaugina vanti, örlítið heimilisleg, gott ef það er ekki pottur á þakinu og fín gufa.]
síðan kortið var keypt hef ég líka farið í mánudagsboltann í
Sporthúsinu, sem er aðeins of sjabbý fyrir minn smekk og aðeins á einum stað á Reykjavíkursvæðinu, og farið í
Versalalaug í Kópavogi, þar sem fínni Nautilus stöðin er (fór bara í pottinn), en hún er alveg lengst upp í rassgati upp á heiði.
ég svolítið svekktur yfir því að það skuli ekki vera almennileg samkeppni í þessum bransa á Íslandi - WC opnaði t.d. í Hfirði, Mosfellsbæ og útá Nesi í desember sl., á meðan önnur fyrirtæki hafa nánast setið á höndum sér hvað dreifingu stöðva varðar.
starfsfólkið er ágætlega þjónustulundað og allt er frekar snyrtilegt - helst mætti kvarta yfir því að ekki eru handklæði á minni stöðvunum (einungis í Laugum, á Nesinu og líklega í Spöng), mætti ekki splæsa í þvottavél á hinum stöðunum?
- [uppfærsla janúar 2011: handklæðaleysið var bara byrjunarvandamál að því er virðist.]
á morgun mánudag opnar 700 fm stöð í hæsta húsi landsins, í göngufæri frá heimili mínu, og bráðum opna stöðvar í nýja miðbæ Garðabæjar og við Vesturbæjarlaugina - það er erfitt að láta stækkunarmetnaðinn fram hjá sér fara.
World Class í Turninum er ágæt þegar taka á stuttlega á því, ofatast eru ekki margir á staðnum og flest algengustu tækin má finna þar. sturturnar eru reyndar bara þrjár og líta út og lykta fremur ógeðslega seint á kvöldin.]
fordómar mínir gagnvart stórveldinu hafa minnkað mikið á þessum dögum, og útlit er fyrir að ég haldi áfram að mæta í WC og sláist þannig í hópinn með
17.000 öðrum Íslendingum sem meðlimur í þessum blessaða klúbbi (þeim hefur fjölgað um 2.000
síðan í desember sl. og um 4.000
síðan í október 2006 þegar þeir töldu um 13.000).
spurningin er bara hvort ég verði bráðum massaður í rusl og köttaður í drasl eða endi sem einn af fjölmörgum óvirkum styrktaraðilum þessa fyrirtækis.
[uppfærsla, janúar 2011:
haustið 2010 opnuðu 8. og 9. stöðin og auðvitað voru þær heimsóttar. tækin þar eru ný af nálinni og helst að hlaupabrettin séu orðin of tæknileg, 5 tungumál og usb-tengi.
Ögurhvarf í Kópavogi er 1100 fm stöð í kreppustíl, húsnæðið hýsti áður Húsasmiðjuna í stuttan tíma og förin eftir hillurnar sjást vel á gólfdúknum.
- hátt er til lofts og nægt pláss fyrir helstu tæki og slatta af brettum og hjólum, búningsklefinn er líka hæfilega rúmgóður.
- pípulagnirnar virðast eitthvað vera að stríða stöðinni og sturturnar eru ansi kaldar ef fleiri en 2 eru í sturtu í einu.
World Class í Kringlunni er í gömlu prentsmiðju Morgunblaðsins og er 1500 fm líkt og Spöngin og Nesið en hún virkar samt minni, enda er slatti af henni í afgirtum sölum og ranghölum. húsnæðið er annars skemmtilega hrátt og stöðun ágæt til síns brúks, iðkendur eru þar í yngri kantinum vegna nálægðar við Versló.]
[önnur uppfærsla, apríl 2016:
ef marka má fréttir eru áskrifendur nú orðnir um 27.000. þá hefur WC opnað í 850 fm í Sundlauginni á Selfossi, flutt Grafarvogsstöðina í 2.400 fm húsnæði í Egilshöll og opnað pínkulitla 200 fm stöð í HR við Öskjuhlíð. ennfremur er boðuð 1.700 fm stöð í Breiðholti við sundlaugin hverfisins í maí 2016 og ný 2.000 fm stöð í Norðurturninum Kópavogi í ágúst s.á. sem kemur í stað þeirrar sem staðsett er í (Deloitte) Turninum.]
[þriðja uppfærsla, maí 2018:
- í nóvember 2006 (árið sem Laugar opnuðu) voru korthafar
um 13.000,
- í desember 2007 voru þeir
15.000,
- í maí 2018 er hún orðin
40.000.
fjórða uppfærsla, maí 2022:
vegna kórónuveirufaraldursins ... dró úr aðsókn í stöðvarnar. Fyrir faraldurinn voru um 49.200 áskrifendur hjá World Class en þeim hafði fækkað í 36 þúsund í maí í fyrra, eða um rúm 13 þúsund. Þeim hefur síðan fjölgað í 42 þúsund ... ]