Hvað er að gerast:

föstudagur, febrúar 29, 2008

jörðin mun farast




í gær ætluðum við félagarnir að hringja á pezzu og höfðum afráðið að hringja í Pezzuhöllina - númerið hjá fyrirtækinu hafði eitthvað skolast til og enduðum við á að hringja í 5 626262.

nema hvað, þar svaraði símsvari sem endurtók í sífellu töluna "74" á ensku, seventífor, seventífor, seventífor.

ég var auðvitað viss um að þetta væri einhverskonar leynileg niðurtalning og hringdi því aftur í dag til að athuga hvort símsvarin myndi segja "73".

"UNICEF, góðan daginn" sagði vinaleg kona þegar ég hringdi rétt í þessu - ansi er það gott cover fyrir dómsdagssamtök.

---

þessi sami félagi er með stærðarinnar áblástur á munni, ojojoj, og fylgdi ég honum í apótek til þess að kaupa Zovir.

miðað við að tveggja gramma pakkning kosti rúmar 1200 krónur, reiknast mér til að kílóverðið sé um 600.000 kr.

sama pakkning kostar rúmar 50 danskar krónur, eða um 670 íkr. ... það er alveg ljóst hverju ég ætla að birgja mig upp af næst þegar ég fer til útlanda.

innflutningur fíkniefna er líka voðalega 2004 eitthvað, nú er komið að samhliða innflutningi okurlyfja til að kenna lyfjafyrirtækjunum smá samkeppnislexíu!

miðvikudagur, febrúar 27, 2008

óóónlý teenage wasteland!

stundum verð ég að spila lagið Teenage Wasteland með Who aftur og aftur og aftur.


það er eins og tón-tíðni lagsins sé samstillt sjálfs míns eigin tíðni suma daga, kannski þegar ég er bjartsýnn.

þriðjudagur, febrúar 26, 2008

ef þú kemur nálægt mér með þennan þvaglegg ...

verið var að dæma þvagleggskonuna til skilorðsbundinnar fangelsisvistar og til að greiða dágóða summu í sakarkostnað.

það fylgdi ekki sögunni í fjölmiðlafárinu vegna málsins að hún hefði hótað


K, GS, U og Þ lífláti og því að hún myndi slíta höfðuðið af börnum þeirra og .. RB því að rífa úr henni legið.
ekki það að neinn eigi skilið að láta troða upp í sig þvaglegg ...

lántakendakvóti

það þarf bara að setja kvótakerfi á íslenska neytendur, til að tryggja undirstöður íslensks viðskiptalífs.

bönkunum og helstu verslunarrisum verður úthlutaður kvóti til þess að veiða, verka og gera viðskiptaafurðir úr íslenskum almenningi.


annars benti frændi minn mér á að John Cleese hefur nýlega verið ráðinn til þess að bjarga pólskum banka, eftir að hafa tekist svona líka vel upp með Kaupthing

Í fréttinni segir í lauslegri þýðingu að það hafi verið

non-difficultly ... to convince comedian to advertising financial institution in Poland, having weighed, that earlier stepped out already in the advertising of banks, of Icelandic among others Kaupthing.
sjá "Banku Zachodniego WBK" vídeo á Jútúb.

mánudagur, febrúar 25, 2008

þó ég sé soldið fjörug í rúmminu þá er ég ekkert drusla, þú ert bara afbrýðasöm því þú ert greinilega uppþornuð kunta

ég hallast barasta að því að þetta ER-spjallinnlegg sé grín:

Hjálp!! fór í sónar í dag...

...og kom í ljós krakki í bumbu og gengin um það bil 17 vikur og það koma 3 til greina, púff einn er giftur, annar er mjög vel stæður og sá þriðji er ekki vel stæður og skuldar mikið.

Er ekki best bara fyrir mig að velja þennan sem er vel stæður og láta hina bara ekkert vita, og segja honum að hann komi bara einn til greina?

...

mér finnst ekkert að því að sofa hjá þreum mönnum á 3 kvöldum, það var löng pabbahelgi og ég átti sko alveg skilið að fá mína útrás

...

ég er sko engin gæra. Og nei ég er ekki á private.is, þetta er maður kunningjakonu minnar

...

heyrðu nú mig, ég ætla bara ekkert að tjá mig um það hvernig hin börnin mín komu undir... þau þurfa ekkert öll að eiga gifta pabba

fimmtudagur, febrúar 21, 2008

langar í krabbameinsleit

ég er alveg sáttur við að halda uppi þjónustu stéttarfélagsins míns, sem er hluti af BHM.

hins vegar finnst mér mjög einkennilegt að þurfa að greiða jafn mikið í styrktarsjóði bandalagsins og raun ber vitni, til þess að félagar geti keypt sér gleraugu og farið á heilsuhæli.

ég gúddera hjálp vegna áfalla, tannviðgerðarstyrki og útfarastyrki, en ekki styrki til líkamsræktar og heyrna- og sjóntækjastyrki.

þess vegna er það prinsipp-mál að fá sem mest af peningunum mínum til baka, þótt ég verði að borg'af'þeim skatt.

nú þegar er ég búinn að fá gleraugnastyrk (25.000) og líkamsræktarstyrk (12.000) og mun bráðum panta mér tíma í áhættumat hjá Hjartavernd (allt að 15.000 kr. styrkur, þyrfti að bæta við einum tíma hjá sálfræðingi, kírópraktor eða í sjúkranuddi).

konan sem ég talaði við hjá Hjartavernd sagði það ekkert nema eðlilegt að fólk undir þrítugu kæmi í skoðun.

reglubundin krabbameinsleit (kembileit) er styrkt að fullu, en mér sýnist ég þurfa að láta mér vaxa legháls eða stærri brjóst til þess að komast í svoleiðis.

samkvæmt 20 ára gamalli grein á síðu krabbameinsfélagsins, stendur til að hefja reglubundna leit að ristilkrabba - ég er hundfúll, en verð víst að bíða aðeins lengur með þetta.

miðvikudagur, febrúar 20, 2008

sólbaðsstofa - sprengihætta


ég var að sjá frétt um að sólbaðsstofa á Austurbrú, við Parken og ekki langt frá íbúðinni sem maður leigði á sokkabandsárum sínum í Köben (kort með frétt Jótlandspóstsins) hafi verið sprengd í loft upp rétt í þessu.

eins og einn segir í ummælum við fréttina:

Det er muhammedtegningernes, politivoldens, Foghs, PETs DFs, afklædte damers og samfundets skyld - det hele!


myndir af jp.dk, avisen.dk og berlingske.dk

miðvikudagsgrínið - lógó

tölvupósturinn með miðvikudagsgríninu bar að þessu sinni yfirskriftina "betra að passa sig við logogerðina":





þriðjudagur, febrúar 19, 2008

hvað er kyn?

er það ekki huglægt?

það var óneitanlega skemmtilegt að fá staðfestingartölvupóst rétt í þessu sem byrjaði á orðunum " Kæra Haraldur".

troðnar kvennaslóðir

í dag skráði ég mig inn á http://www.kvennaslodir.is/


... ég á von á því að fá boð um setu í stjórn einhvers stórfyrirtækisins hvað úr hverju.

mánudagur, febrúar 18, 2008

the big hand

þessi fallega stúlka er undarlega stórhent í Stofn-auglýsingu Sjóvár, hún hlýtur að vera sjómaður:

föstudagur, febrúar 15, 2008

úti að aka


ég er búinn að vera út' að Keira Knightley síðustu daga.


... um þverbak og úr öllu hófi.

miðvikudagur, febrúar 13, 2008

hversu tanaður er meðalmaðurinn?


í dag svarar Vísindavefurinn spurningunni um kjörþyngd meðalmannsins, miðað við æskilegt Body Mass index:

Meðalhæð íslenskra karlmanna er nú 180,6 cm og kvenna 170,6 cm.

Kjörþyngd meðalmannsins er því á bilinu 60-81 kg og meðalkonunnar 54-72 kg. Eins og sjá má er þetta nokkuð vítt bil, en bent hefur verið á að BMI í kringum miðbikið eða aðeins nær hærri
mörkum, til dæmis í kringum 22-24, sé tengt hvað minnstri heilsufarslegri áhættu.
um leið og ég gleðst yfir því að vera meðalmaður á hæð og breidd, get ég ekki annað en velt því fyrir mér hversu tanaður meðalmaðurinn er.

er hann tanaður í rusl, tanaður í drasl, fölur eins og nár, fölur og gulur, beisaður ...???

sjálfur er ég fölur og gugginn.

sunnudagur, febrúar 10, 2008

nokkrir góðir dagar í líkamsrækt

hversu fyndið er það að Gunnar Birgisson hafi verið að vígja líkamsræktarstöð, er það ekki eins og að láta Þorgrím "pungsápu" Þráinsson opna reykingarklúbb?


miðvikudaginn 30. janúar sl. keypti ég vikuprufukort í World Class - þrátt fyrir að það hafi kostað heilann 4300 kjall. ég reyndi að nýta vikuna vel og heimsótti 5 af 6 stöðvum WC á Íslandi.
Seltjarnarnes er sú stöð sem ég heimsótti fyrst og hef heimsótt oftast síðan. hún er ekki of stór, ekki of lítil (1500-2000 fm, eftir því hvort maður telur sturturnar og það allt með), nýleg og snyrtileg og lyktar ekki eins og sjómannshandarkriki eftir þriggja daga sturtuleysi.

  • aðgangur er að sundlaug sveitarfélagsins, sem er vel.
  • sánan er ekki tilbúin, sem er verra - og sturtan er allt of þröng og skolar bara 6 í einu.

Actavishúsið í Hafnarfirði (nýja glerhýsið á horninu) var næsta stopp, mjög fín 700 fm aðstaða þar með útsýni yfir Hafnarfjarðarveginn og með sturtuklefum í miðjunni - ekki mikið af fólki en þó ekki svo lítið að reynslan verði of persónuleg.

  • sánan er ekki tilbúin, sem er verra
  • sturtan skolar bara þrjá í einu í karlmannsklefanum.

Orkuveituhúsið hýsir pínkulítið og vel falið WC við einn bílastæðiskjallarann - það er varla meira en 200 fm. fáir virðast sækja staðinn, eflaust er það einkum fólk sem vinnur í húsinu og örfáir Árbæingar sem vita af staðnum.

  • það skrýtna við þá aðstöðu er hversu stór búningsklefinn er og margar sturtur, miðað við hve fáir geta svitnað í sjálfri æfingaraðstöðunni - hlýtur að vera fyrir hinn almenna sveitta starfsmann OR.

Laugar eru krúnudjásn WC, stærsta heilsuræktarmiðstöð á landinu (sjö þúsund fermetrar, 180 upphitunartæki og 120 hinsegin), staðsett miðsvæðis í Rvk.

  • mjög auðvelt er að falla þar í fjöldann en einnig að finnast maður vera eins og viljalaus líkamsræktarmaur innan um öll hin fíflin.
  • tækin eru reyndar ekki jafn flott og í nýrri stöðvunum, og þá meina ég að það er ekki sjónvarp í sjálfum skíða- og hlaupabrettunum, ég held að ég sé háður þeim lúxus.

Laugardalslaugin er opin gestum Lauga og svo er gufubað inn af sturtunum í karlaklefanum - ég skil reyndar ekki af hverju það þarf að vera niðadimmt þar inni, geta samkynhneigðir ekki bara fengið sérgufubað?

Lágafellslaug í Mosó deilir aðstöðu með lítilli og sætri 700 fm WC-stöð "með fullkomum tækjasal", sturtuaðstaðan er ein sú stærsta og snyrtilegasta í keðjunni, og nánast enginn var í tækjasalnum þegar ég heimsótti hann um fimmleytið í dag, sunnudag, og það var mjög næs að hafa hann út fyrir sig - í upphitunartækjasalnum var einkum úthverfafólk á miðjum aldri, ekkert mikið fyrir augað - en það er líka aukaatriði.

Spöngin er eina stöðin sem ég er eftir að heimsækja, en þar er elsta núverandi WC-stöðin.

  • hún er 1330 fm og ágæt til síns brúks skilst mér, þótt tækin séu aðeins farin að láta á sjá.
  • [uppfærsla janúar 2011: Spöngin er fín þótt sundlaugina vanti, örlítið heimilisleg, gott ef það er ekki pottur á þakinu og fín gufa.]

síðan kortið var keypt hef ég líka farið í mánudagsboltann í Sporthúsinu, sem er aðeins of sjabbý fyrir minn smekk og aðeins á einum stað á Reykjavíkursvæðinu, og farið í Versalalaug í Kópavogi, þar sem fínni Nautilus stöðin er (fór bara í pottinn), en hún er alveg lengst upp í rassgati upp á heiði.

ég svolítið svekktur yfir því að það skuli ekki vera almennileg samkeppni í þessum bransa á Íslandi - WC opnaði t.d. í Hfirði, Mosfellsbæ og útá Nesi í desember sl., á meðan önnur fyrirtæki hafa nánast setið á höndum sér hvað dreifingu stöðva varðar.

starfsfólkið er ágætlega þjónustulundað og allt er frekar snyrtilegt - helst mætti kvarta yfir því að ekki eru handklæði á minni stöðvunum (einungis í Laugum, á Nesinu og líklega í Spöng), mætti ekki splæsa í þvottavél á hinum stöðunum?

  • [uppfærsla janúar 2011: handklæðaleysið var bara byrjunarvandamál að því er virðist.]

á morgun mánudag opnar 700 fm stöð í hæsta húsi landsins, í göngufæri frá heimili mínu, og bráðum opna stöðvar í nýja miðbæ Garðabæjar og við Vesturbæjarlaugina - það er erfitt að láta stækkunarmetnaðinn fram hjá sér fara.

World Class í Turninum er ágæt þegar taka á stuttlega á því, ofatast eru ekki margir á staðnum og flest algengustu tækin má finna þar. sturturnar eru reyndar bara þrjár og líta út og lykta fremur ógeðslega seint á kvöldin.]

fordómar mínir gagnvart stórveldinu hafa minnkað mikið á þessum dögum, og útlit er fyrir að ég haldi áfram að mæta í WC og sláist þannig í hópinn með 17.000 öðrum Íslendingum sem meðlimur í þessum blessaða klúbbi (þeim hefur fjölgað um 2.000 síðan í desember sl. og um 4.000 síðan í október 2006 þegar þeir töldu um 13.000).

spurningin er bara hvort ég verði bráðum massaður í rusl og köttaður í drasl eða endi sem einn af fjölmörgum óvirkum styrktaraðilum þessa fyrirtækis.



[uppfærsla,  janúar 2011:

haustið 2010 opnuðu 8. og 9. stöðin og auðvitað voru þær heimsóttar. tækin þar eru ný af nálinni og helst að hlaupabrettin séu orðin of tæknileg, 5 tungumál og usb-tengi.

Ögurhvarf í Kópavogi er 1100 fm stöð í kreppustíl, húsnæðið hýsti áður Húsasmiðjuna í stuttan tíma og förin eftir hillurnar sjást vel á gólfdúknum.
  • hátt er til lofts og nægt pláss fyrir helstu tæki og slatta af brettum og hjólum, búningsklefinn er líka hæfilega rúmgóður.
  • pípulagnirnar virðast eitthvað vera að stríða stöðinni og sturturnar eru ansi kaldar ef fleiri en 2 eru í sturtu í einu.
World Class í Kringlunni er í gömlu prentsmiðju Morgunblaðsins og er 1500 fm líkt og Spöngin og Nesið en hún virkar samt minni, enda er slatti af henni í afgirtum sölum og ranghölum. húsnæðið er annars skemmtilega hrátt og stöðun ágæt til síns brúks, iðkendur eru þar í yngri kantinum vegna nálægðar við Versló.]

[önnur uppfærsla, apríl 2016:

ef marka má fréttir eru áskrifendur nú orðnir um 27.000. þá hefur WC opnað í 850 fm í Sundlauginni á Selfossi, flutt Grafarvogsstöðina í 2.400 fm húsnæði í Egilshöll og opnað pínkulitla 200 fm stöð í HR við Öskjuhlíð. ennfremur er boðuð 1.700 fm stöð í Breiðholti við sundlaugin hverfisins í maí 2016 og ný 2.000 fm stöð í Norðurturninum Kópavogi í ágúst s.á. sem kemur í stað þeirrar sem staðsett er í (Deloitte) Turninum.]

[þriðja uppfærsla, maí 2018:
- í nóvember 2006 (árið sem Laugar opnuðu) voru korthafar um 13.000
- í desember 2007 voru þeir 15.000, 
- í maí 2008 voru 18.900 manns í áskrift hjá þeim, 

- í apríl 2016 er talan sögð 27.000,
- í maí 2018 er hún orðin 40.000.

fjórða uppfærsla, maí 2022:

vegna kór­ónu­veirufar­ald­urs­ins ... dró úr aðsókn í stöðvarn­ar. Fyr­ir far­ald­ur­inn voru um 49.200 áskrif­end­ur hjá World Class en þeim hafði fækkað í 36 þúsund í maí í fyrra, eða um rúm 13 þúsund. Þeim hef­ur síðan fjölgað í 42 þúsund ... ]

litháski Duonos

hér í Engihjalla, í sama húsi og rányrkjubúðin 10/11, er Austur-Evrópsk, Mið-Evrópsk og Eystrasaltnesk nýlenduvöruverslun.

þar má m.a. kaupa litháíska eðalvökvann Duonos Gira - í stuttu máli bragðast hann eins og útþynnt Malt sem fengið hefur að standa í um 10 daga og bætt hefur verið með sterkum rúsínusafa.

eftirbragðið er heldur ekkert til að hrópa húrra yfir.

fimmtudagur, febrúar 07, 2008

að ríða Matt Damon

Matt Damon er frekar leiðinleg týpa held ég, en hann er svolítið fyndinn í þessu myndbandi Söruh Silverman (úr þætti kærasta hennar, feita gæjans úr ManShow): youtube.com/watch?v=wnVJZkDuVBM


hún er svo fyndin að það er kynæsandi.

miðvikudagur, febrúar 06, 2008

aldrey með y

maður á aldrei að segja aldrey.

nema átt sé við málmblönduna Aldrey (99% ál, 0,5% magnesíum, 0,5% silícium).

svo getur maður líka verið bleslyndur.

mánudagur, febrúar 04, 2008

pratar du IKEA?


þetta vissi ég ekki og e.t.v. þurfti ég ekki að vita það - nafnareglur IKEA:

Sofas, coffee tables, bookshelves, media storage and doorknobs are named after places in Sweden (Klippan, Malmö); beds, wardrobes and hall furniture after places in Norway; carpets after places in Denmark and dining tables and chairs after places in Finland [halló, vantar ekki eitthvað hér?]. Bookcases are mainly occupations (Bonde, peasant farmer; Styrman, helmsman). Bathroom stuff is named after lakes and rivers.

Kitchens are generally grammatical terms, and kitchen utensils are spices, herbs, fish, fruits, berries, or functional words such as Skarpt (it means sharp, and it's a knife). Chairs and desks are Swedish men's names (Roger, Joel); materials and curtains are women's names. Children's items are mammals, birds and adjectives (Ekorre is a set of children's toy balls; it means squirrel). So now you know.

Guardian.

spáin í dag

kuldi -8°C, vindur suðaustur 3 m/s, sólsetur um kl. 17.30.

"Í dag gerast hlutinir sem vanalega gerast aldrei"
segir stjörnspáin fyrir krabbamenn á mbl.

kannski ég sé staddur á svæðinu þar sem venjulegir hlutir gerast yfirleitt ekki?

laugardagur, febrúar 02, 2008

Top Gear á ísnum

endalausir teaserar SkjásEins vegna tvöfalda TopGear þáttarins þar sem Jeremy og félagar reyna að komast fyrstir manna á N-Pólinn á bílum urðu til þess að ég gafst upp og kveikti á YouTjúb.

þættirnir tveir sem fjalla um pólferðina eru þar í 8 pörtum, þannig að ef maður vill fá SkjáEinn fílinginn þá getur maður horft á auglýsingar á milli parta.

til þess að gera þetta spennandi fóru tveir þáttarstjórnendanna á bíl (ásamt tökuliði og tveimur íslenskum ArcticTrucks gæjum) og einn reyndi að vera á undan þeim á hundasleða sem stýrt var af utanaðkomandi hörkukvendi.

besta skemmtun.

föstudagur, febrúar 01, 2008

kominn í herinn


í morgun, á svæðinu milli svefns og vöku (þar sem eðlilegir hlutir gerast mjög sjaldan) heyrði ég að kallað var "komdu á fætur Halli, komdu á fætur".

einhvern vegin tengdi ég það beint við draumfarir næturinnar og dró þá ályktun að við værum á leiðinni að skrá okkur í herinn, líklega þann norska.

ég fékk mikla bakþanka um skráninguna, ég var svo þreyttur á þessum laugardegi (sem ég hélt að væri runninn upp), það ætti ekki við mig að stunda vetrarhernað (ég sá mig fyrir mér upp á hálendi á skíðum með riffil í hönd) og það væri ekkert sjálfgefið að við færum að sinna herþjónustu fyrir Noreg.

það tók mig nokkrar mínútur að átta mig á því að eini hernaðurinn sem ég væri að fara að stunda í bráð væri upp á skrifstofu á inniskóm með tölvumús í hönd.

fötudagsgrínið - blessuð lukkan

föstudagspósturinn í dag er í boði Selfyssingsins í vinnunni:



...