konan gerir hvad for noget?
1. í rigningarveðri í Osló þann 20. ágúst sl. villtist ég inn í Platekompaniet í 'Osló City' verslunarkjarnanum. þar voru nokkrar norskar dvd-myndir á tilboði og afréð ég að kaupa 3 stykki, þar á meðal eina sem heitir Tatt av kvinnen (Tekinn af konunni) frá 2007, en myndin virtist hafa fengið góða dóma í noregi, myndirnar á umslaginu sýndu mann sem gekk um með sundhettu og sundgleraugu öllum stundum og söguþráðurinn virtist hálf súrrealískur - einhvers konar Elling-pæling hugsaði ég með mér.
2. í rigningarveðri í Köben þann 23. ágúst sl. villtist ég inn í Arnold Busck á Købmagergade. þar voru nokkrar bækur eftir Erlend Loe sem vöktu athygli mína og afréð ég að kaupa eina, sem bar nafnið Kvinden flytter ind frá 2007, um konu sem kemur oftar og oftar í heimsókn til manns nokkurs og áður en hann veit af er hún flutt inn til hans. 'En historie om en mand og en kvinde. Om at vide sig sikker på om man er forelsket.
ég las samdægurs 25 bls. í henni á Paludan kaffihúsinu þarna rétt hjáog hlakkaði nokkuð til þess að taka upp lesturinn seinna.
3. í rigningarveðri í Kópavogi í gær setti ég Tatt av Kvinnen á fóninn. myndin byrjaði á því að sýna konu og karl við ýmsar heimilislegar aðstæður á meðan sögumaður las upp texta sem ég kannaðist svona rosalega mikið við.
hafði ég þá ekki keypt danska þýðingu á fyrstu bók norska rithöfundarins Erlend Loe, Tatt av kvinnen (frá 1993), í Kaupmannahöfn, án þess að gera mér grein fyrir því að ég hafði stuttu áður keypt kvikmyndina sem gerð var eftir bókinni.
ég slökkti strax á kvikmyndinni og ákvað að klára bókina fyrst - þetta væri greinilega saga sem mér væri ætlað að kynna mér.
mikið hefur maður fjölbreyttan smekk.