dagar mínir sem námsmaður eru senn taldir (í bili?) og því hef ég gerst mjög norskur upp á síðkastið.
í dag er síðasti miðvikudagur dvalarinnar og stefnan var því tekin á að heimsækja 7 söfn í borginni sem bjóða 'pöpulnum' frítt í heimsókn á miðvikudögum. norskan að drepa mann, en ég sparaði þó ca. 7x40 dkr.
halda þurfti vel á spöðunum til að ná 7 söfnum og útbjó ég því dagskrá í gær, sem miðuð var við opnunartíma og staðsetningu, en fyrsta safnið opnaði 10 og það síðasta lokaði 21, sjá hér (með linkum).
dagurinn sem senn er á enda kom einhvernvegin svona út:
1 Thorvaldsensmuseum - myndir
fagurappelsínugult hús sem tileinkað er landa mínum Bertel opnaði dyrnar sínar á slaginu 10. þetta var mjög góð skemmtun og ég verð að viðurkenna að hann hefur kunnað nokkuð til verka strákurinn.
Amor virðist hafa verið í miklu uppáhaldi hjá honum, hann var þarna út um allt, á öllum aldri, spilandi á hörpu, örina sína og á sjálfan sig og að leika með öllum hinum fyrirbærunum, Venusi, Mars og þeim. sömuleiðis var hlutfall naktra karlmanna vs. kvennmanna svolítið of hátt fyrir minn smekk. ég fer alltaf svolítið hjá mér þegar ég sé þessi litlu rómversku typpi.
2 Tøjhusmuseet - myndir
vopna- og hersafn borgarinnar er steinsnar frá Thorvaldsen og því var tilvalið að rölta þangað. það opnaði ekki fyrr en á hádegi og því gáfust nokkrar mínútur á milli til þess að teiga kaffið úr thermostatnum og horfa á nokkra fugla í bókasafnsgarðinum, en hersafnið er rétt hjá Fólksþinginu (sem er rétt hjá Thorvaldsen).
þegar inn var komið blasti við þessi aaaragrúi af byssum, hnífum, kanónum, rifflum, loftvarnableh og ég veit ekki hvað og hvað. það hefði mátt taka yfir litla Ísland bara með einum þriðja af sverðunum. þetta var óneitanlega ekta strákasafn, eins og sást þegar 2 skólahópar (danskur og pólskur) komu hlaupandi (strákarnir) og dragandi lappirnar (stelpurnar) er ég var að fara.
ég tók þetta vídeo af sjálfum mér að spila hermarsa á safninu - eins og sést átti ég mjög erfitt með að skipta um lag í safntölvunni.
3 Orlogsmuseet -myndir
er ég var að ljúka við að svala landstríðsfíkn minni hringir Íris í mig og drífur mig með sér að kjósa í þessum Alþingiskosningum, sem mér skilst að séu að skella á (hef reyndar ekkert orðið var við þær í fjölmiðlum heima ...).
það passaði fullkomnlega því flotasafn landsins er einmitt í leiðinni í íslenska sendiráðið, þarna niðrá Kristjánshöfn.
umgjörðin á safninu var reyndar svolítið íslensk og raunarleg, en þó var margt áhugavert og flott þarna að finna. enn var stríð rauði þráðurinn, enda þótt maður hafi fengið góða innsýn inn í líf danskra sjómanna um leið.
4 Kunsthallen Nikkolaj
þetta safn stóðst engan vegin þær væntingar sem undirritaður hafði gert sér til þess. ég er eiginlega feginn að batterýin hafi klárast er inn var komið, jah fyrir utan að mér langaði að taka mynd af einu bílflaki sem átti að hafa verið ferjað frá Írak (en gat eins verið af Norðurbrú).
sýningin sem nýverið var sett þarna upp fjallar semsagt um stríðið í Írak "The Return of The Democracy - destination: Írak".
þemað er svosem ekki slæm hugmynd, en framkvæmdin var allt of ... húlabúla við erum hinsegin, gerum gjörninga með olnbogunum!!?&%
þarna hafa svona listamenn fengið að ráða sem vilja svo ægilega mikið vera öðruvísi og fjarlægjast 'hefðbundin' listform, að úr verður bara bull. það lá við að ég hefði þóst vera spasstískur og farið að öskra og baða út höndum, svo ófrumleg voru frumlegheitin -"hey vá krakkar, vörpum vídjói af Bush og talíbana á klósettrúllur sem hanga niður úr gólfinu og setjum við hliðiná risamyndina af nakta svarta nauðrakaða manninum! far át, nei ég meina fnjepað skelurðu"
ég tók því bara stuttan hring um Kúnstnahúsið og fékk mér svo pulsu eins og hver annar þorpari á kóngsins nýtorgi. áður en batterýin kláruðust náði ég þó að taka myndir af safninu - sem er fyrrum kirkja, roma-harmonikkuleikurum á Strikinu og strætó með ESB fána flaktandi (til hamingju með ammælið ESB!).
5 Kunstindustrimuseet - myndir
dönsk hönnunarlist er sýnd í furðustóru húsnæði á Breiðgötu, sem er ekki langt frá Austurbrú. klukkan var ekki nema 15.45 þegar þarna kom við sögu, enda hafði Nikolaj heimsóknin tekið mjög stuttan tíma. sá ég mér því leik á borði og fór heim og sótti aukabatterý heima, fyllti á bjórnestið og skilaði af mér þermostatnum (ég veit, mjög norskt allt. við það er að bæta að í skápunum á safninu biðu mín 2x20 dkr, hahh, ölmonní!).
í safninu kennir margra skemmtilegra grasa og var farið yfir helstu tískur í húsgagnahönnun, með áherslu á dk. þarna var auðvitað hann Arne með eggið, auk þess sem ég fann Lögbergsstólinn fræga (þekktur sem Barcelona stolen utan Lögbergs).
er ég hafði villst inn í postulínsdeildina sagði önugur safnvörður mér að verið væri að loka (önugur því það var miðvikudagur og ekkert nema freeræderar að káfa á safnmununum), ég hafði skrifað hjá mér að það lokaði ekki fyrr en kl. 18 og missti því klukkutíma þar. sem betur fer var ég búinn með mest af 20. öldinni og átti bara 'gamla draslið' eftir - sem mér þótti síður spennandi.
6 Post og Telemuseum - myndir
Póst- og símasafnið lokar ekki fyrr en kl. 20 og ég hafði því góðan tíma til að litast þar um, sem betur fer. þrátt fyrir að nafnið hljómi ekki allt of fjöruglega var þetta hin besta skemmtun fyrir öll vit. sýningin spannaði samskiptasögu landsins og kom á óvart hversu fræðandi og skemmtileg hún var. fyrir utan reyndar frímerkjaherbergið, ekki alveg minn túnfiskur.
graskerakerra dregin af hestum, karl að skrifa bréf úr fangelsi, pönkari fyrir utan símaklefa, dagur í lífi símadömu (þær þurftu að vera ógiftar, vel talandi og geta lifað á litlu) lifandi járnbrautalestir og fleira kætir þarna augað og ég hvet alla til að kíkja við.
7 Dansk Design Center - myndir
í rólegheitum mínum rölti ég yfir á H.C. Andersen búlevard, á móti Glyptotekinu, til þess að skoða enn meiri danska hönnun. þetta var stutt og laggóð heimsókn þar sem gaf m.a. að líta tölvur, ryksugur, kaffikönnur, reiðhjól og símann úr Stellu í orlofi sem var til á hverju heimili heima á þeim tíma.
á efri hæðinni gaf að líta vinningshafa dansk design verðlaunanna í ár, þ. á m. tannlæknastól.
neðsta hæðin hafði að geyma flow-verslun, einkar áhugaverða. þar mátti kaupa innri frið, öryggistilfinningu, samúð og fleira skemmtilegt, í þar til gerðum lyfjaglösum, sprautum og flöskum. inn á milli voru plaköt með áminningum um misskiptingu auðs á jörðinni, hættum neyslusamfélagsins og þvíumlíkt. svona á að vera frumlegur, hugsaði ég.
þetta var hinn skemmtilegasti dagur og fór ég létt með að taka yfir 400 myndir. nú er svo komið að ég á bara eftir Afsteypusafnið og Músiksafnið til þess að hafa náð að plægja öll frísöfn og stundum frí-söfn borgarinnar.
markmiðið var auðvitað ekki að hlaupa í gegnum sem flest söfn á sem stystum tíma, en þessi 7 á einum degi eru vel gerleg. það hjálpar auðvitað að hafa einbeitingu gullfisks og vera af skyndikynslóðinni, þessari sem vill fá allt strax, drífa það af og henda því svo eins og tyggjói. þetta er samfélaginu að kenna.