Hvað er að gerast:

föstudagur, september 28, 2007

raunveruleg skerðing á tjáningarfrelsi

ég á enga boðlega rauða skyrtu ... ég er heldur ekki viss um að það muni hjálpa neitt þótt við klæðum okkur öll eins.
"áður, settu þeir eld að sjálfum sér í mótmælaskyni"

"núna, með bensínverðið eins og það er ..."

"... verður maður að hjálpa þeim"

(mynd eftir de Maëster)

mánudagur, september 17, 2007

le triangle

þá er þríhyrningurinn allur, Brno, Köben Lúx.

segja má að maður dansi í kringum Þýskaland.

sit hér í risasmáu íbúðinni í miðbæ Lúx, með þarlendan Mousel bjór í hönd. allt í kring eru fínar götur, með fínum búðum og fínum fötum.

samleigjandinn sem bjó hér á undan passaði upp á að okkur myndi ekkert vanta og skildi eftir allt frá lánsryksugu og örbylgjupoppi til símkorta og bjórs í ísskápnum.

að vera í Lúxemborg er eins og maður gæti ímyndað sér að Ísland væri ef menn hefðu verið undirgefnari dönskunni - hér er töluð franska á sunnudögum og flesta aðra daga, en lúxemborgískan ástkæra ylhæra einkum í eldhúsinu.

föstudagur, september 14, 2007

ertu með heilablóðfall, eða?

Heilablóðfall: ÞRJÚ atriði (eða þar um bil)

(fyrst Madeleine fjöldapósturinn skilaði svo góðum árangri, af hverju ekki að berjast gegn sjúkdómum líka?)

Hvernig þekkir maður heilablóðfall (án þess að sjá inn í heilann á fólki eins og á þessari mynd)

Vinkona einhvers einhversstaðar sem var að fá heilablóðfall hrasaði við og datt. Hún sannfærði viðstadda um að það væri allt í lagi með sig, hún hefði bara hrasað út af nýju skónum sínum. Síðar um kvöldið hringdi eiginmaður hennar og sagði að hún hefði látist og dánarorsökin væri heilablóðfall (ekki sáttur). Hefðu þeir sem voru með henni þekkt einkenni heilablóðfalls þá hefði kannski verið hægt að bjarga henni.

(Ef þú trúir ekki þessari sögu þá eru miklar líkur á að þú verðir étinn af ljóni eða annars konar ljósu kattardýri.)

Heilablóðfall dregur suma til dauða en lamar aðra. Taugasérfræðingur ku geta snúið við afleiðingum heilablóðfalls ef hann fær sjúklinginn nógu fljótt, galdurinn sé að greina blóðfallið og koma sjúklingnum á sjúkrahús innan þriggja klukkustunda.

HVERNIG HÆGT ER AÐ ÞEKKJA HEILABLÓÐFALL – ca. þrjú mikilvæg atriði sem gott er að miða við:

1. Biddu viðkomandi að BROSA.

2. Biddu manneskjuna að TALA, SEGJA EINFALDA SETNINGU Í SAMHENGI (sólin skín í dag en í gær var rigning)

3. Biddu hana að LYFTA BÁÐUM HANDLEGGJUM UPP.

[Ath.: enn eitt merkið um heilablóðfall: Biddu viðkomandi að reka út úr sér tunguna og ef hún (tungan) er bogin til annarrar hliðarinnar getur það líka verið merki um heilablóðfall.]

Ef viðkomandi á í vandræðum með eitt eða fleiri af þessum fyrirmælum hringdu þá í 112 og lýstu einkennunum.